Afmælisbörn 7. október 2017

Ragnhildur Gísladóttir

Á þessum degi eru fimm afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Söngvarinn (Sveinberg) Skapti Ólafsson hefði orðið níræður í dag en hann lést fyrr á árinu. Skapti var af fyrstu rokkkynslóðinni, söng og lék á trommur með ýmsum sveitum eins og Fjórum jafnfljótum, Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Carls Billich og Hljómsveit Magnúsar Randrup auk eigin sveitar en hann varð þekktastur fyrir söng sinn í lögunum Ó nema ég og Allt á floti á þessum upphafsárum rokksins. Lög hans hafa margsinnis verið gefin út á safnplötum síðan en einnig gaf hann út sólóplötu fyrir nokkrum árum.

(Guðmunda) Ragnhildur Gísladóttir er sextíu og eins árs gömul. Ragnhildur hefur sungið með nánast öllum þekktum sveitum frá því að hún hóf sinn tónlistarferil sem bassaleikari hljómsveitarinnar Sveindísar, síðan komu sveitir á borð við Tilviljun og í kjölfarið Lummurnar, Brunaliðið, Brimkló, Grýlurnar og Stuðmenn en Ragnhildur á einnig sólóferil að baki auk samstarfs við Jakob F. Magnússon í Human body orchestra og Ragga & the Jack Magnet Orchestra svo annars konar dæmi séu tekin.

Gunnar Lárus Hjálmarsson eða bara Dr. Gunni er fimmtíu og tveggja í dag. Gunnar var lengi neðanjarðar í rokktónlistasköpun sinni með sveitum á borð við Beri beri, F/8, Dordinglum, S.H. draumi, Unun og Bless en hlaut einskonar opinbera viðurkenningu með barnaplötunni Abbababb. Hann hefur alltaf unnið sólóefni og starfaði lengi við blaðamennsku í tengslum við tónlist og hefur á síðustu árum og áratugum skapað sér nafn sem einn helsti popptónlistarfræðingur þjóðarinnar, og gefið út bækur í því samhengi.

Friðrik Dór Jónsson popptónlistarmaður er tuttugu og níu ára gamall. Friðrik starfaði í hljómsveitinni Fendrix á unglingsárunum en söng fyrst inn á plötu sem innihélt söngleikinn Welcome to the jungle þegar hann var í Verzló. Hann varð þó fyrst þekktur fyrir sólóefni sitt en hann hefur gefið út tvær sólóplötur en auk þess starfað með röppurum og öðrum tónlistarmönnum á borð við Emmsjé Gauta, Blaz Roca, Immo, Kiasmos og StopWaitGo. Allir þekkja líka framlag hans til Eurovision keppninnar í undankeppninni 2015.

Díana (Bjarney) Magnúsdóttir söngkona er sjötíu og fjögurra ára gömul á þessum degi. Hún þótti afar efnileg dægurlagasöngkona á sínum tíma og hóf ung að syngja með Hljómsveit Skafta Ólafssonar en síðar City sextett, Fimm í fullu fjöri, JJ kvintett og KK sextett svo fáein dæmi séu nefnd. Öllum að óvörum hætti Díana að syngja að mestu um áramótin 1961-62 og þótti mörgum sjónarsviptir af henni.