Söngur vonar – ný plata Sólmundar Friðrikssonar

Nýlega sendi tónlistarmaðurinn Sólmundur Friðriksson frá sér sína fyrstu sólóplötu en hún ber titilinn Söngur vonar, og hefur að geyma ellefu lög. Plötuna gefur Sólmundur sjálfur út en útgáfuna fjármagnaði hann m.a. í gegnum Karolina fund.

Á plötunni eru öll lög og textar eftir Sólmund sjálfan en hann nýtur aðstoðar fjölmargra tónlistarmanna s.s. Sigurgeirs Sigmundssonar gítarleikara, Ara Braga Kárasonar trompetleikara, Arnórs Vilbergssonar orgelleikara, Ingvars Alfreðssonar hljómborðsleikara, Þorvaldar Halldórssonar trommuleikara, Matthíasar Birgis Nardeau óbóleikara og Davíð Sigurgeirssonar gítarleikara en sá síðast nefndi annaðist allar upptökur og útsetningar á plötunni ennfremur. Sjálfur leikur Sólmundur á bassa og syngur en dætur hans, Hildur og Agnes, syngja jafnframt á plötunni sem og Birta Rós Sigurjónsdóttir.

Sólmundur Friðriksson

Sólmundur Friðriksson er Austfirðingur, fæddur 1967 á Stöðvarfirði. Hann er menntaður kennari og tónmenntakennari, hefur m.a. starfað sem bassaleikari með Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og Talentunum frá Keflavík, og sungið með kórum víða um land. Sólmundur starfar í dag sem öryggisvörður á Keflavíkurflugvelli.

Tónleikar í tilefni útgáfu plötunnar Söngur vonar voru haldnir á dögunum í Hljómahöllinni (félagsheimilinu Stapa) í Keflavík en það var jafnframt fimmtugsafmæli Sólmundar sem fagnaði deginum ásamt fjölda gesta.

Plötuna er hægt að nálgast m.a. í verslunum Pennans Eymundssonar en einnig er hægt að nálgast hana beint hjá Sólmundi með því að senda honum póst á solmundurf@gmail.com . Hér er tengill á Youtube þar sem heyra má titillag plötunnar, Söngur vonar, flutt af Hildi Sólmundardóttur.