Ljúft og persónulegt áheyrnar

Sólmundur Friðriksson – Söngur vonar
Sólmundur Friðriksson [án útgáfunúmers], 2017

 

 

Tónlistarmaðurinn Sólmundur Friðriksson sendi nú síðsumars frá sér sína fyrstu plötu en hún ber titilinn Söngur vonar og var að mestu leyti fjármögnuð í gegnum Karolina Fund sem er leið sem margir nota þessa dagana og er snilldin ein, sérstaklega fyrir einyrkja sem eiga erfitt með að fjármagna útgáfu sem þessa með auðveldum hætti.

Sólmundur er ekki kannski meðal þekktustu tónlistarmanna landsins en hann er fæddur og uppalinn Stöðfirðingur en býr nú á Suðurnesjunum, fimmtugur að aldri, kennari og tónmenntakennari að mennt. Hann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum, s.s. Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og sungið í kórum en nýútkomin sólóplata, Söngur vonar er hans langstærsta tónlistarverkefni fram að þessu.

Sólmundur hefur samið lög og ljóð fyrir skúffuna sína og hefur eins og margir fundið hjá sér þörf fyrir að koma einhverju þess efnis frá sér, sem er vel því efnið er ágætlega valið úr skúffunni og á klárlega erindi til almennings þó svo að hér sé ekki beinlínis verið að finna upp hjólið.

Hann gerir það eina rétta í stöðunni að fá sér til fulltingis fagfólk en sjálfur leikur hann á bassa auk þess að syngja þannig að hans persónulega nálgun á tónlistina hverfur aldrei, Davíð Sigurgeirsson sér hins vegar um upptökur og útsetningar af smekkvísi.

Lögin, ellefu talsins, eru afar jöfn að gæðum og má segja að platan sé því jafngóð, því sé ég ekki ástæðu til að velja sérstaklega eitt eða fleiri lög sem standa upp úr. Sólmundur fer hins vegar þá leið að brjóta plötuna upp með tveimur (og hálfu) instrumental lögum og er það sterkur leikur. Þar má segja að sótt sé annars vegar í smiðju Gary Moore (Blús fyrir Agga), hins vegar Magnús Blöndal Jóhannsson (Leitin að Angelu) en í síðarnefnda laginu örlar fyrir áhrifum frá hinu sígilda Sveitinni milli sanda.

Að öðru leyti má segja um lagasmíðarnar að þar sé langt frá því verið að finna upp hjólið, berstrípuð mætti segja að lögin væru gamaldags og mætti jafnvel líkja þeim við sígilda geirmundartónlist án þess að þau líkindi nái neitt lengra eða að það sé eitthvað neikvætt, hefðbundnar melódískar og e.t.v. svolítið fyrirsegjanlegar lagasmíðar en þó fínar.

Textarnir skora hærra, leitun er orðið að höfundum dægurlagatexta sem nota stuðlasetningu í dag og því er ánægjulegt að vita til að enn eru til tónlistarmenn sem kunna fræðin, ljóðin eru aukinheldur persónulegar og einlægar smíðar sem eiga erindi víða.

Sólmundur kemst yfirleitt nokkuð þokkalega frá sínum söng og annar söngur (sem m.a. er í höndum dætra hans) er góður sem og allur hljóðfæraleikur og ef það ætti að lýsa flutningi og útsetningum í einu orðið þá ætti „smekkvísi“ einkar vel við. Engu er ofaukið og ekkert vantar í hljóðfæraleikinn, raddsetningarnar eru smekklegar svo segja mætti að allt sé gert af miklu öryggi. Þetta er einn af höfuðkostum plötunnar en kannski um leið líka ókostur hennar þar sem maður týnist í þægilegheitunum ef engin áreiti eru til að trufla. Skortur á frumlegheitum þarf auðvitað ekki að vera galli en manni hættir til að vera stöðugt að leita uppi eitthvað í tónlistinni sem er nýtt, ferskt eða öðruvísi. Það á bara einfaldlega ekki við hér.

Allt útlit plötunnar er til fyrirmyndar, smekklegt og í stíl við tónlistina, textabæklingurinn er ennfremur læsilegur og ber hugleiðingar höfundar um hvert lag – plús fyrir það.

Söngur vonar er því nokkuð góð plata, Sólmundur kemur tónlistinni frá sér af smekkvísi, einlægni og persónulegheit einkenna plötuna og hún er þægileg og ljúf áheyrnar. Tónlistin, sem er svolítið gamaldags, myndi sóma sér ágætlega í útvarpsspilun en einhvern veginn grunar mig að erfiðlega gangi að koma henni þangað.

En þetta er alltént ágætis byrjun.