Fást (1985-86)

Fást

Hljómsveitin Fást starfaði á Sauðárkróki um eins ár skeið um miðjan níunda áratug síðustu aldar, og lék nokkuð á dansleikjum nyrðra.

Fást var stofnuð haustið 1985 og voru meðlimir hennar Sigurður Ásbjörnsson hljómborðsleikari, Guðrún Oddsdóttir söngkona, Sólmundur Friðriksson bassaleikari, Kristján Baldvinsson trommuleikari, Eiríkur Hilmisson gítarleikari og Magnús Helgason söngvari.

Sveitin gerði út á ballmarkaðinn í Skagafirðinum og nágrenni um veturinn og um páskana 1986 hélt sveitin til Reykjavíkur og tók upp átta lög á fjörutíu tímum í hljóðverinu Mjöt. Í upptökunum leysti Ægir Ásbjörnsson Sigurð bróður sinn af á hljómborðinu en var ekki liðsmaður sveitarinnar. Tónlistin var eftir þá Eirík og Magnús en textana orti Guðmundur Hannesson. Afrakstur upptakanna voru skömmu síðar gefnar út á snældu sem bar titilinn Svartnættiskuklið.

Svartnættiskuklið seldist fremur illa og vildu liðsmenn sveitarinnar meina að titillinn hefði kannski eitthvað með það að gera en reyndar fékk kassettan ekkert sérlega góða dóma heldur í héraðsblaðinu Feyki á heimaslóðum þeirra.

Fást starfaði ekki lengi eftir útgáfu snældunnar um vorið, gerð var tilraun til að endurvekja sveitina um sumarið og voru meðlimir hennar þá Magnús söngvari, Sigurður hljómborðsleikari og Kristján trommuleikari en í stað hinna voru nú komnir áðurnefndur Ægir sem nú lék á gítar og söng, og Úlfar Haraldsson bassaleikari. Nýja útgáfa sveitarinnar varð skammlíf og hætti um mitt sumar 1986.

Efni á plötum