Thorbjörn Egner (1912-90)

Thorbjörn Egner

Allir þekkja hinn norska Thorbjörn Egner og verk hans en þau hafa komið út um heim allan, m.a. hér á Íslandi. Honum var margt til lista lagt en auk þess að vera rithöfundur var hann liðtækur tónlistar- og myndlistamaður.

Egner fæddist í Oslo 1912 og hæfileikar hans á listasviðinu komu snemma í ljós, hann lauk þó verslunarprófi áður en hann nam myndlist og var kominn undir þrítugt þegar hann ákvað að reyna fyrir sér sem rithöfundur.

Hann ritaði fjölda bóka, mestmegnis barnabækur og slógu bækurnar um Karíus og Baktus (1941), Dýrin í Hálsaskógi (1953) og Kardemommubæinn (1955) í gegn sem og leikgerðirnar sem komu í kjölfarið. Sjálfur myndskreytti Egner sögur sínar og þegar þær voru færðar upp á leiksviðið samdi hann einnig tónlistina og textana í þeim, og hannaði jafnvel leikmyndina sjálfur. Ennfremur hafa nokkrar kvikmyndir verið gerðar eftir sögum hans. Hann lést árið 1990.

Fyrstu kynni Íslendinga af verkum Thorbjörns Egner voru haustið 1954 en þá gaf Thorvaldsen félagið út bókina um Karíus og Baktus, til styrktar byggingu barnaheimilis.

Sagan um Kardemommubæinn var lesin í Ríkisútvarpinu haustið 1958 og ári síðar var hún tekin til sýninga í Þjóðleikhúsinu í leikstjórn Klemenz Jónssonar. Hulda Valtýsdóttir og Kristján frá Djúpalæk önnuðust þýðingar en tónlistarstjórn var í höndum Carls Billich. Sýningin naut mikilla vinsælda reyndar eins og flest allar uppfærslur á verkum Egners hérlendis og höfundurinn kom sjálfur og var viðstaddur lokasýninguna. Hann átti eftir að koma aftur síðar (haustið 1975) til að vera viðstaddur sýningu á Kardemommubænum, sem oft hefur verið settur á svið hér á landi.

Plata með tónlistinni úr Kardemommubænum kom út á vegum Íslenzkra tóna 1960, hún var sjö tomma en var engu að síður þrettán laga. Ríkisútvarpið annaðist upptökur á plötunni og var hún líkast til endurútgefin, að minnsta kosti er hún til með tvenns konar plötumiðum.

Bókin um Dýrin í Hálsaskógi hafði komið út í þýðingu Huldu og Kristján frá Djúpalæk árið 1958 undir titlinum Lilli klifurmús og hin dýrin í Hálsaskógi en leikritið var síðan tekið til sýninga í Þjóðleikhúsinu haustið 1962 og sýnt við miklar vinsældir.

Thorbjörn Egner á yngri árum

Kardemommubærinn var aftur tekinn til sýninga í upphafi árs 1965 og sýndur fram á sumar, og það sama ár kom einnig út lítil plata á vegum SG-hljómplatna undir heitinu Karíus og Baktus: barnaleikrit með söngvum. Sú upptaka var gerð á vegum Ríkisútvarpsins og annaðist Magnús Ingimarsson hljómsveitarstjórn en Sigríður Hagalín og Helga Valtýsdóttir túlkuðu þá Karíus og Baktus.

1967 kom út hjá SG-hljómplötum Dýrin í Hálsaskógi: barnaleikritið skemmtilega eftir Thorbjörn Egner, þar var um að ræða upptöku frá Þjóðleikhúsinu og hefur platan margoft verið gefin út síðan, fyrst um sinn á vínylformi en síðar á geislaplötuformi.

Ári síðar (1968) var nýtt leikrit eftir Egner, Síglaðir söngvarar, sett á fjalir Þjóðleikhússins og enn var það eftir sömu forskrift, Klemenz var sem fyrr leikstjóri, Carl Billich sá um tónlistina og þýðing verksins var í höndum Huldu Valtýsdóttur og Kristjáns frá Djúpalæk, sem annaðist ljóðaþýðingarnar. Síglaðir söngvarar fengu ekki nándar nærri eins góðar viðtökur og fyrri verk Egners og fyrir vikið var Svavar Gests hjá SG-hljómplötum lítt ákafur til hljómplötuútgáfu, Tónaútgáfan á Akureyri réðist hins vegar í verkið 1973 en þær upptökur fóru fram hjá Ríkisútvarpinu.

Platan um Dýrin í Hálsaskógi hafði selst vel hjá SG-hljómplötum og fyrir jólin 1970 var komið að Kardemommubænum, þar var um að ræða upptöku úr Þjóðleikhúsinu frá því 1965. Platan hefur eins og Dýrin í Hálsaskógi margsinnis verið endurútgefin og þegar hún kom út á geislaplötu (líklega 1994) var að finna á henni tuttugu mínútna viðbótarefni sem ekki hafði verið á fyrri útgáfum.

Þó svo að SG-hljómplötur hefðu ekki gefið út Síglaða söngvara réðist Svavar í útgáfu á barnaleikritinu Verkstæði jólasveinanna fyrir jólin 1973, það leikrit hafði verið flutt upphaflega í Ríkisútvarpinu undir leikstjórn Baldvins Halldórssonar en SG-hljómplötur fengu leyfi til að búa það til plötuútgáfu og var það fjórða leikrit Thorbjörns Egner sem útgáfan kom að. Verkstæði jólasveinanna fjallar um útvarpsmann og dóttur hans sem fara í heimsókn á verkstæði jólasveinanna með það fyrir augum að kynna heimsóknina fyrir hlustendum barnatíma útvarpsins. Tvö lög af jólaplötum Ómars Ragnarssonar voru látin fylgja með til uppfyllingar og til að ramma efnið inn. Platan var endurútgefin á geisladiskaformi 1994.

Árið 1979 var platan um Karíus og Baktus einnig endurútgefin á stórri plötu SG-hljómplatna ásamt ævintýrinu um Litlu Ljót (eftir Hauk Ágústsson).

Þeir tannpínubræður voru síðan endurútgefnir árið 1996 með Síglöðum söngvurum undir titlinum Tvö barnaleikrit eftir Thorbjörn Egner, af plötuútgáfunni Spor en sú útgáfa hafði þá eignast útgáfuréttinn af síðarnefnda leikritinu.

Karíus og Baktus fóru reyndar ekki á svið hjá Þjóðleikhúsinu fyrr en haustið 2001, þá á Smíðaverkstæðinu í leikstjórn Maríu Reyndal, Jóhann G. Jóhannsson annaðist tónlistarþáttinn en engin plata var gefin út í tengslum við sýninguna.

Það sama ár, 2001 kom fram tríó undir nafninu Dýrin í Hálsaskógi og gaf út plötu sem hafði að geyma instrumental óskilgreinda tónlist með djassívafi úr leikritinu, hún hlaut titilinn Láttekkieinsoðúsértekkiðanna og hlaut ágætar viðtökur, t.d. frábæra dóma í Morgunblaðinu.

Myndskreyting Egners úr Kardemommubænum

Árið 2004 voru Dýrin í Hálsaskógi enn og aftur sett á svið Þjóðleikhúsinu og þá kom út ný útgáfa af tónlistinni úr verkinu, það var Jóhann G. Jóhannsson sem sá um tónlistina en Sigurður Sigurjónsson var leikstjóri, Þjóðleikhúsið gaf plötuna út.

Tveim árum síðar tók Leikfélag Akureyrar Karíus og Baktus upp á sína arma undir leikstjórn Ástrósar Gunnardóttur með hljómsveitina 200.000 naglbíta til aðstoðar, af því tilefni kom út platan Karíus og Baktus & 200.000 naglbítar.

2010 kom síðan út fjögurra platna pakki, Thorbjörn Egner: Gömlu góðu barnaleikritin á 4 geislaplötum, gefinn út af Íslenskum tónum. Eins og titillinn ber með sér var þarna um að ræða safnútgáfu af gömlu leikritunum sem SG-hljómplötur og Tónaútgáfan höfðu upphaflega gefið út en áætlað var þá að fyrri útgáfurnar hefðu selst í um hundrað þúsund eintökum samtals.

Eins og sjá má af allri upptalningu hér að framan eru uppfærslur og útgáfur á verkum Thorbjörns Egner ótal margar hér á landi, hér hafa nánast einungis verið upptaldar þær uppfærslur sem tengjast plötuútgáfunni en stóru leikfélögin og áhugamannaleikhúsin hafa fært verk hans miklu oftar á svið, þá eru ótaldar skólauppfærslur. Af því má ráða að flestallir landsmenn þekki Thorbjörn Egner og verk hans að einhverju eða flestu leyti. Rétt er líka að nefna að höfundurinn á mun fleiri verk útgefin en hér hafa verið upptalin, enda er hér aðeins komið inn á plötuútgáfutengdar leikhús- og útvarpsuppfærslur.

Nafn Thorbjörns Egner hefur jafnframt tengst íslenskri tónlist með öðrum hætti, lög hans eru víða sungin og t.a.m. hafa lög úr Kardemommubænum og Dýrunum í Hálsaskógi verið sungin í flestum leikskólum, þannig má ætla að langflestir landsmenn þekki vögguvísuna Dvel ég í draumahöll eða söng Ræningjanna í Kardemommubæ, svo dæmi séu nefnd.

Þá má nefna að hljómsveitir hér á landi hafa borið nöfn sem hafa beina skírskotun í verk Egners, þar má nefna hljómsveitirnar Karíus og Baktus, Jónatan, Dýrin í Hálsaskógi og Mikka ref.

Efni á plötum