Dagskrá í tilefni aldarminningu Jórunnar Viðar

Eva Þyri Hilmarsdóttir og Erla Dóra Vogler

Nú um nýliðna helgi hófu Erla Dóra Vogler söngkona og Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari dagskrá helgaða tónskáldinu Jórunni Viðar en sú dagskrá mun standa yfir næsta árið með fjölda tónleika tileinkaða sönglögum hennar og útsetningum á þjóðlögum, og útgáfu geislaplötu svo dæmi séu nefnd.

Tilefnið er aldarminning Jórunnar Viðar en hún fæddist fullveldisárið 1918 og lést á síðasta ári, níutíu og níu ára gömul.

Á fyrstu uppákomunni núna í vikunni munu þær stöllur flytja nokkur lög eftir Jórunni að lokinni jafnréttisráðstefnu sem sendiráð Íslands í Berlín stendur fyrir og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sækir.

Á næstunni munu þær Erla Dóra og Eva Þyri syngja á tvennum tónleikum tileinkuðum aldarafmæli Jórunnar, sem skipulagðir hafa verið á vegum KÍTÓN og verða annars vegar í Iðnó sunnudaginn 29. apríl nk. klukkan 17:00 og hins vegar í Hofi á Akureyri viku síðar, sunnudaginn 6. maí klukkan 17:00.