
Tríó Kristjáns Magnússonar
Tríó Kristjáns Magnússonar píanóleikara var til í margs konar útfærslum, frá árinu 1952 og allt til ársins 1992 eða í um fjóra áratugi. Eins og gefur að skilja starfaði tríóið með hléum og með mismunandi meðlimaskipan.
Fyrst er tríós Kristjáns getið í fjölmiðlum 1952 en það ár lék það á djasshátíð, m.a. með saxófónleikaranum Ronnie Scott. Með Kristjáni í þessari fyrstu útgáfu voru Axel Kristjánsson bassaleikari og Svavar Gests trommuleikari.
1954 og nokkuð óslitið starfaði Tríó Kristjáns til ársins 1962 af því er virðist en ekki liggur fyrir fyrir víst hverjir voru með honum allan þann tíma, Sigurbjörn Ingþórsson bassaleikari og Guðjón Ingi Sigurðsson trommuleikari skipuðu tríóið með Kristjáni 1960 og á einhverjum tímapunkti voru Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og Jón Sigurðsson bassaleikari í sveitinni en það hefur líklega verið nokkru fyrr.
Árið 1965 var tríó starfandi í nafni Kristjáns en síðan ekki fyrr en 1977 og lék sú útfærsla á blúskvöldi. Engar upplýsingar finnast hins vegar um hverjir skipuðu tríóið þá.
1980 fer Kristján hins vegar af stað aftur með tríó sem virðist starfa nokkurn veginn óslitið til ársins 1989 eða 90, og svo aftur 1992. Með honum léku Friðrik Theódórsson bassaleikari og Sveinn Óli Jónsson trommuleikari árið 1981 og líklega eitthvað lengur og gekk þessi útgáfa tríósins stundum undir nafninu KR-tríóið. Þessi útgáfa lék að öllum líkindum undir með Chet Baker trompetleikara árið 1984.
Á seinni stigum starfstíma tríósins léku Tómas R. Einarsson bassaleikari og Guðmundur R. Einarsson trommuleikari með Kristjáni, a.m.k. árin 1988 og 89.
Án nokkurs vafa komu mun fleiri við sögu Tríós Kristjáns Magnússonar og eru allar frekari upplýsingar um meðlimaskipan þess vel þegnar.