Tríó Óla (1960-70)

Tríó Óla starfaði á Fljótsdalshéraði allan sjöunda áratug síðustu aldar og líklega eitthvað fram á þann áttunda þótt ekki finnist nákvæmar upplýsingar um það, tríóið skartaði fyrstu hljómsveitarsöngkonu Austfjarða.

Tríó Óla mun hafa verið stofnað 1960 og voru meðlimir þess í upphafi Óli Kjerúlf harmonikkuleikari sem var hljómsveitarstjóri, Hrafnkell Björgvinsson trommuleikari og Methúsalem Kjerúlf gítarleikari.

Fjölmargir gítarleikarar komu við sögu sveitarinnar og eru þar nefndir Hjörtur Kjerúlf, Magnús Einarsson, Andrés Einarsson, Jón Guðmundsson og Guðrún M. Kjerúlf en hún söng einnig með tríóinu og varð þannig fyrsta söngkonan á Héraði sem starfaði með hljómsveit, af því er talið er. Þá voru kvenkyns gítarleikarar í hljómsveitum ennfremur sjaldséðir.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um skipan sveitarinnar hverju sinni en Óli, Hrafnkell og Guðrún skipuðu það á árunum 1967-69.