Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari starfrækti fjöldann allan af hljómsveitum á sínum tíma og voru þar á meðal tríó en fyrsta hljómsveit Ólafs var einmitt tríó.
Ólafur Gaukur var aðeins átján ára þegar hann stofnaði tríó í eigin nafni árið 1948, ásamt honum voru í tríóinu Kristján Magnússon píanóleikari og Hallur Símonarson bassaleikari en jafnframt söng Ólafur með tríóinu.
Ekki liggur fyrir hvort tríóið starfaði alveg samfleytt, enda lék Ólafur Gaukur á þessum árum með fjölda sveita en víst er að tríóið var starfandi árið 1950 og 1954 en síðarnefnda árið lék það á þremur 78 sn. plötum sem komu út á vegum hljómplötuútgáfunnar Tóniku, þetta voru tveggja laga plata með Öddu Örnólfs og Ólafi Briem, og tvær tveggja laga plötur með Öskubuskum en Öskubuskuplöturnar höfðu m.a. að geyma lögin Bjartar vonir vakna og Seztu hérna… Á plötum Öskubuskna voru þeir Árni Elfar píanóleikari og Kristinn Vilhelmsson kontrabassaleikari með Ólafi og hér er giskað á að meðlimaskipan hafi verið sú sama á plötu Öddu Örnólfs og Ólafs Briem.
Árið 1955 lék tríóið undir söng bandaríska söngkvintettsins Delta rhythm boys sem hingað kom til lands um haustið en ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um skipan tríósins þá, ári síðar voru Kristján Magnússon píanóleikari og Jón Sigurðsson bassaleikari með Ólafi Gauki en Haukur Morthens söng nokkuð með þeim félögum á þessum árum.
Svo virðist sem hátt í fjörutíu og fimm ár hafi liðið áður en Ólafur Gaukur starfrækti næst tríó en það var aldamótaárið 2000. Þá voru með Gauknum í tríói Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Carl Möller píanóleikari. Ári síðar hafði Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari tekið við af Carli en það var líklega í síðasta skipti sem Tríó Ólafs Gauks var starfandi.