Tríó Óla Stolz (1992-)

Tríó Óla Stolz árið 2000

Kontrabassaleikarinn Ólafur Stolzenwald hefur í gegnum tíðina starfrækt djasstríó í ýmsum myndum, elstu heimildir um slíkt tríó eru frá árinu 1992. Ýmsir hljóðfæraleikarar hafa leikið með Ólafi í þessum tríóum og hefur algengasta form þeirra verið bassi, tromma og píanó en einnig aðrar útfærslur s.s. bassi, píanó og trompet eða jafnvel bassi, gítar og trompet.

1994 léku þeir Þorsteinn Eiríksson (Steini Krúpa) á trommur og Jóhann Kristinsson á píanó með Ólafi og söng Ragnheiður Ólafsdóttir með tríóinu. Ári síðar voru Jóhann píanóleikari og Gunnar Jónsson trommuleikari með honum og árið 1996 voru það Árni Heiðar Karlsson píanisti og Steingrímur Óli Sigurðarson trommuleikari sem skipuðu tríóið ásamt Ólafi. Þá hefur Scott McLemore einnig leikið með Ólafi og Árna Heiðari.

Tríó Óla Stolz var nokkuð virkt á árunum í kringum aldamótin og þá voru gjarnan með honum títtnefndur Árni Heiðar og Birkir Freyr Matthiasson trompetleikari og enn ein útgáfan innihélt þá Ólaf, Birki Frey og Jón Pál Bjarnason gítarleikara.

Sjálfsagt hafa mun fleiri tónlistarmenn starfað með Tríói Ólafs Stolzenwald og eru upplýsingar þ.a.l. vel þegnar.