Bergmenn [1] (1978-83)

Bergmenn

Gömludansabandið Bergmenn lék víðs vegar um landið og jafnvel víðar um nokkurra ára skeið á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Ekki liggur alveg fyrir hvenær sveitin var stofnuð en það gæti allt eins hafa verið árið 1974 þótt elstu heimildir um hana séu frá því í febrúar 1978.

Bergmenn voru Ásgeir Sverrisson harmonikkuleikari, Njáll Sigurjónsson hljómborðsleikari og söngvari og Guðmundur Steinsson trommuleikari en einnig söng Sigríður Maggý Magnúsdóttir (Sigga Maggý) eiginkona Ásgeirs með sveitinni á stundum. Sveitin var að mestu skipuð sömu einstaklingunum allan tímann en trommuleikarinn Guðmundur Garðar Hafliðason tók við af nafna sínum Steinssyni. Þá var Atli Jónsson með sveitinni síðasta árið sem hún starfaði, tók við af Njáli sem fluttist til Færeyja.

Sveitin spilaði tónlist sína mestmegnis á dansstöðvum höfuðborgarinnar en fór einnig út á land, hún varð einnig svo fræg að leika undir dansi þjóðdansahópsins Fiðrilda frá Egilsstöðum á alþjóðlegri þjóðdansahátíð sem haldin var í Búlgaríu sumarið 1978.

Bergmenn störfuðu að öllum líkindum til ársins 1983. Þess má geta að fyrrnefndur Njáll Sigurjónsson sem flutt hafði til Færeyja kom með þarlendri hljómsveit sinni til Íslands árið 1998 en sú sveit hét einmitt líka Bergmenn.