Burkni (1991-92)

Hljómsveitin Burkni starfaði á höfuðborgarsvæðinu, líklega innan veggja Menntaskólans í Reykjavík, á árunum 1991 og 92, hugsanlega eitthvað lengur.

Sveitin lék fremur þungt gamalt rokk í anda Led Zeppelin og slíkra sveita, og sigraði í hljómsveitakeppni sem haldin var á vegum Nillabars í árslok 1991 en hún var þó líklega frægust fyrir að innihalda söngkonu sem heitir Margrét Sigurðardóttir og sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 1992.

Aðrir meðlimir sveitarinnar voru Ragnar Emilsson gítarleikari, Páll Hermannsson gítarleikari, Eiður Alfreðsson og Hafsteinn Ingimarsson trommuleikari. Hafsteinn hafði tekið við trommunum af öðrum en ekki liggja fyrir upplýsingar um þann.

Burkni auglýsti eftir nýjum trommuleikara í júní 1992 en síðan heyrðist ekkert meira frá hljómsveitinni og má því ætla að hún hafi þá hætt störfum.