Vaxandi (1986-87)

Vaxandi

Hljómsveitin Vaxandi starfaði á höfuðborgarsvæðinu 1986-87, hún var skipuð ungum meðlimum um og innan við tvítugt og var stofnuð upp úr hljómsveitinni Presleyvinafélaginu sem aftur hafði verið stofnuð innan Skólalúðrasveitar Árbæjar og Breiðholts. Tveir meðlimir Vaxandi urðu þjóðþekktir söngvarar.

Meðlimir sveitarinnar munu hafa komið víða að, úr Árbænum, Breiðholtinu og Kópavogi en alls voru þeir sex í bandinu. Bjarni Arason söngvari sveitarinnar er líkast til þeirra þekktastur en hann sigraði söngvarakeppnina Látúnsbarkann sem haldin var sumarið 1987 og varð landsþekktur fyrir vikið, aðrir upphafsmeðlimir sveitarinnar voru Sigurður Gunnarsson gítarleikari, Jón Leifsson bassaleikari, Guðjón Ólafsson tenór-saxófónleikari, Steinar Björn Helgason trommuleikari og Helgi Ólafsson hljómborðsleikari. Þeir Helgi hljómborðsleikari og Guðjón saxófónleikari (bræður) hættu síðan í sveitinni en í þeirra stað komu Rafn Jónsson hljómborðsleikari og Arnar Freyr Gunnarsson gítarleikari og bakraddasöngvari en sá síðarnefndi sigraði einmitt Látúnsbarkakeppnina 1988.

Vaxandi spilaði víða um land en hætti störfum um haustið 1987, þá voru komnir einhverjir brestir í samstarfið, Bjarni og Arnar áttu þó eftir að starfa saman í hljómsveitinni Búningunum.