Vaxandi (1986-87)

Hljómsveitin Vaxandi starfaði á höfuðborgarsvæðinu 1986-87, hún var skipuð ungum meðlimum um og innan við tvítugt og var stofnuð upp úr hljómsveitinni Presleyvinafélaginu. Tveir meðlimir Vaxandi urðu þjóðþekktir söngvarar.

Meðlimir sveitarinnar munu hafa komið víða að, úr Árbænum, Breiðholtinu og Kópavogi en alls voru þeir sex í bandinu. Bjarni Arason söngvari sveitarinnar er líkast til þeirra þekktastur en hann sigraði söngvarakeppnina Látúnsbarkann sem haldin var sumarið 1987 og varð landsþekktur fyrir vikið, annar meðlimur sveitarinnar, Arnar Freyr Gunnarsson sigraði sömu keppni ári síðar en afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi Vaxandi. Steinar [?], Sigurður [?] og Jón [?] voru meðal þeirra en nafn þess sjötta vantar, sem og hljóðfæraskipan þeirra hinna.

Vaxandi hætti störfum um haustið 1987 en þá voru komnir einhverjir brestir í samstarfið, Bjarni og Arnar áttu þó eftir að starfa saman í hljómsveitinni Búningunum.