Melchior (1973-80 / 2006-)

Melchior 1974

Saga hljómsveitarinnar Melchior skiptist í tvö tímabil, annars vegar er um að ræða Melchior áttunda áratugarins þegar nokkrir vinir úr menntaskóla stofnuðu hljómsveit sem starfaði í sjö ár og sendi frá sér tvær breiðskífur og eina smáskífu, hins vegar Melchior tuttugustu og fyrstu aldarinnar þar sem sami mannskapur að mestu leyti er orðinn ríflega aldarfjórðungi eldri og hefur líklega aldrei haft meiri sköpunarþrá.

Melchior var stofnuð sumarið 1973 af nokkrum nemendum við Menntaskólann í Reykjavík, Björgúlfur Egilsson gítarleikari var stofnandi sveitarinnar og fékk Hilmar Oddsson píanóleikara, Arnþór Jónsson sellóleikara og Karl Roth gítarleikara með sér. Líklega var ekki föst hljóðfæraskipan í sveitinni til að byrja með og skiptu menn óspart á milli hljóðfæra líkt og Spilverk þjóðanna og fleiri sveitir gerðu um svipað leyti. Tónlistin var þjóðlagakennd en síðar varð hún líkt og tónlist Spilverksins skilgreind sem kammerpopp, sjálfir sögðust meðlimir sveitarinnar leika léttklassíska popptónlist með djassívafi.

Sveitin kom fyrst fram í Tónabæ haustið 1973 og lék þar reyndar í nokkur skipti um veturinn. Gunnar Hrafn Birgisson bassaleikari gekk til liðs við sveitina og síðan söngkonan Helga Möller sem þarna steig fram á sjónarsviðið í fyrsta sinn, reyndar líkt og allir hinir í Melchior. Vorið 1974 fór Björgúlfur stofnandi sveitarinnar utan til Danmerkur (þar sem hann átti m.a. eftir að starfa með Kamarorghestum), en í stað hans kom Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson, Gunnar hætti hins vegar fljótlega í sveitinni og staldraði því stutt við.

Melchior var þarna skipuð þeim Hilmari, Karli, Arnþóri, Helgu og Hróðmari þegar þeim hugkvæmdist að gefa út plötu haustið 1974, með það sama var skundað í HB stúdíó Hjartar Blöndal (daginn eftir) og tvö lög tekin upp (The funny thinking man og Song of long forgotten fame). Þegar prufupressan af plötunni barst þeim reyndust upptökurnar vera ónýtar og því var aftur farið til Hjartar og gerð önnur tilraun til plötuupptöku. Það tókst betur til í þetta skipti og smáskífan kom út á Þorláksmessu undir titlinum Björgúlfur Benóny Grímúlfur Melkjör Emanúel Egilsson Leir Fæt Bíleigandi Bergrisi Hermaníus Þengill Trefill, sem ku vera með lengstu plötutitlum hér á landi. Sveitin gaf plötuna út í þúsund eintökum í samstarfi við Roth-útgáfuna sem var fjölskylduútgáfufyrirtæki Roth-fjölskyldunnar í Mosfellssveit og sendi frá sér fjölda forvitnilegra titla á sínum tíma. Platan vakti litla athygli enda hlaut hún litla sem enga dreifingu fyrir jólin en einn dómur birtist í fjölmiðlum, sá birtist í Vísi og var þokkalegur.

Melchior

Fljótlega eftir áramótin 1974-75 hætti Helga í sveitinni en þetta var frumraun hennar í plötuupptökum, nýir meðlimir komu inn í sveitina í kjölfarið, Ólafur Flosason óbóleikari og Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari. Þannig skipuð lék sveitin næstu mánuðina og um sumarið 1975 bættist Steingrímur Guðmundsson trommuleikari í hópinn. Sveitin æfði mikið þá um sumarið en kom ekkert fram opinberlega, með tilkomu Steingríms varð tónlist Melchior nokkuð þyngri en hún hafði verið fram að því en um haustið lagðist sveitin í dvala.

Melchior vaknaði aftur til lífsins vorið 1977 og um sumarið héldu þeir tónleika í Norræna húsinu, þá skipuðu hana Gunnar, Hróðmar Ingi, Karl, Hilmar, Ólafur og söngkonan Kristín Jóhannsdóttir en þau höfðu sér til fulltingis aukafólk eins og Helgu Þórarinsdóttur lágfiðluleikara, Stefán Stefánsson flautu- og saxófónleikara, Rósu Gísladóttur sellóleikara og Jónas Þóri píanóleikara. Sveitin spilaði einnig eitthvað opinberlega um haustið og veturinn en eitthvað minna þegar leið á vorið 1978 enda var hópurinn þá byrjaður að vinna að plötuupptökum í Hljóðrita undir stjórn Garðars Hansen. Um það leyti var líka tekinn upp sjónvarpsþáttur sem var sýndur snemma sumars, þar sem eitthvað af nýju lögunum voru leikin en þau voru flest eftir Hróðmar og Hilmar.

Í júní leit afraksturinn ljós þegar breiðskífan Silfurgrænt ilmvatn kom út á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar en þrjár aðrar plötur komu út á vegum Iðunnar þann sama dag, m.a. barnaplata Megasar, Nú er ég klæddur og kominn á ról. Platan fékk fremur jákvæðar undirtektir gagnrýnenda, hún fékk ágæta dóma í Tímanum, Þjóðviljanum, tímaritinu Halló og Morgunblaðinu, þokkalega í Stéttarbaráttunni en slaka í Dagblaðinu. Eitt laganna, Alan, náði nokkrum vinsældum en það heyrist enn spilað á útvarpsstöðvum stöku sinnum.

Um þetta leyti starfaði sveitin nokkuð tengt leikhúsinu, samdi t.d. tónlist við leikrit Odds Björnssonar (föður Hilmars), Krukkuborg, en önnuðust einnig tónlistarflutning í leikriti Jökuls Jakobssonar, Syni skóarans og dóttur bakarans í Þjóðleikhúsinu um haustið.

Melchior árið 1978

Melchior hélt eins konar kveðjutónleika síðla hausts 1978 og var ekki betur séð en að sveitin myndi leggja upp laupana að minnsta kosti í bili, sem varð. Starfsemi sveitarinnar lá niðri um veturinn og allt fram á sumarið 1979 þegar félagarnir þrír Hilmar Ingi, Hróðmar og Karl hófu að vinna að nýrri plötu og taka upp. Þarna var Melchior orðið að tríói en Ólafur, Gunnar og Kristín voru þó ekki langt undan og komu að gerð plötunnar, ástæða þess er ekki kunn hvers vegna þau voru ekki fastir meðlimir sveitarinnar en hér er giskað á að þau þrjú hafi ekki verið tilbúin að taka fjárhagslega áhættu við plötuútgáfuna en ákveðið hafði verið að Melchior gæfi hana út sjálf. Platan var tekin upp á heimili Roth fjölskyldunnar að Bala í Mosfellssveit og var Garðar Hansen upptökumaður eins og á fyrri plötunni en fjölmargt aukafólk kom að upptökunum sem hljóðfæraleikarar.

Platan leit dagsins ljós vorið 1980 og bar titilinn Balapopp, enda platan tekin upp í Bala. Um var að ræða tuttugu og tveggja laga plötu en flest laganna voru í styttri kantinum, jafnvel fáeinar sekúndur en aðeins eitt þeirra náði þremur mínútum. Farin var sú leið að klippa saman lagabúta og ýmislegt annað þannig að sum laganna virkuðu svolítið sundurlaus og tilraunakenndi. Félagarnir þrír sömdu lögin en Hallgrímur H. Helgason samdi flesta textana, hann hafði einmitt ort ljóðið við lagið Alan. Þeir Melchior-liðar létu hafa eftir sér að þessi plata væri mun meira Melchior heldur en hin fyrri enda hefði andi sveitarinnar horfið svolítið í upptökunum á fyrri plötunni. Balapopp fékk ágæta dóma í Helgarpóstinum og Dagblaðinu, þokkalega í Vísi en slaka í Tímanum, sveitin fylgdi plötunni hins vegar ekkert eftir með tónleikahaldi og hvarf reyndar fljótlega í kjölfarið líkt og þeir hefðu með útgáfu plötunnar náð markmiði sínu og verkefninu væri því lokið.

Tríóið Melchior

Hróðmar Ingi, Hilmar og Karl fóru hver í sína áttina, leiðir Hróðmars og Hilmars sköruðust reyndar eitthvað á næstu áratugum, þeir störfuðu t.d. saman að óperunni Söngvar hjartans ásamt Hallgrími textahöfundi, þeir eiga síðan þá báðir tónskáldaferil að baki og Hilmar er auðvitað einnig kunnur kvikmyndaleikstjóri, Karl var hins vegar lítið viðloðandi tónlist næstu misserin.

Í raun er aldrei hægt að segja að hljómsveitir hætti nema eins konar dánarvottorð hafi verið gefið út, slíkt hafði aldrei verið gert í þessu tilviki og því ætti ekki að koma á óvart að Melchior birtist á nýjan leik þótt ríflega aldarfjórðungur liði þar til það gerðist.

Árið 2006 kom hópurinn saman á nýjan leik og tróð upp í fimmtugsafmæli eiginkonu Hróðmars Inga, þá var ekki aftur snúið og gamall sköpunarkraftur og spilagleði tók sig upp. Sveitin var á þeim tímapunkti mestmegnis klúbbur miðaldra karla í æfingahúsnæðinu og spilaði ekkert opinberlega. Í nýrri útgáfu sveitarinnar voru þeir Hróðmar Ingi, Hilmar og Karl auk Gunnars Hrafnssonar bassaleikara og Steingríms Guðmundssonar trommuleikara sem báðir höfðu komið við sögu sveitarinnar fyrrum. Það var svo árið 2008 sem sveitin hóf að taka upp nýtt efni sem hafði verið að gerjast með þeim félögum. Efnið var síðan frumflutt á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði vorið 2009 og skömmu síðar á stofutónleikum Listahátíðar í Reykjavík. Platan kom svo út um svipað leyti og bar nafn sveitarinnar, hún var sautján laga og náði upphafslag hennar, Fiskisúpa Sigríðar í fjöruhúsinu nokkurri athygli og vinsældum um sumarið. Nokkrir auka hljóðfæraleikarar komu við sögu á plötunni, flestir úr röðum fjölskyldna þeirra félaga – t.d. Hera Hilmarsdóttir leikkona dóttir Hilmars sem leikur á selló. Þá syngja einnig söngkonurnar fyrrverandi, Helga Möller og Kristín Jóhannsdóttir á henni. Platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu. Melchior fylgdi plötunni nokkuð eftir með tónleikahaldi og spilamennsku og gekk Kristín til liðs við þá félaga á nýjan leik en Helga tók einnig lagið með sveitinni.

Melchior á miðjuopnu Vikunnar

Reyndar hafði upphaflega hugmyndin verið á þá leið að gefa út eins konar safnplötu af gömlu plötunum með fáeinum nýjum lögum en þegar nýja efnið óx í höndunum á sveitinni var kýlt á heila plötu og safnplatan sett á bið. Hún kom hins vegar út árið eftir (2010), var tvöföld og hét Melchior < 1980. Báðar breiðskífurnar var að finna á safnplötunni auk annars lagsins af smáskífunni, hinu var sleppt. Það var nokkuð gagnrýnt af poppskríbentum sem og að þeir skyldu endurvinna tvö af hinum lögunum, lagið Alan var annað þeirra, annars fékk platan góða dóma í Fréttablaðinu.

Melchior var nú komin á fullt á nýjan leik og lék á tónleikum í kjölfar útgáfu safnplötunnar og svo áfram árið 2011, þau héldu áfram að frumflytja nýtt efni og unnu samhliða því að nýrri plötu. Eitt nýrra laga með sveitinni var jólalagið Jólin koma brátt sem hafði heyrst í kvikmynd Hilmars, Desember (2009), en það var eftir Hróðmar Inga.

Snemma árs 2012 kynnti sveitin nýtt efni af væntanlegri plötu á Þorratónleikum, um þetta leyti hafði Kjartan Guðnason tekið við trommunum af Steingrími en sá síðarnefndi kom reyndar einnig við sögu á plötunni sem kom út um vorið og hafði titilinn Matur fyrir tvo. Platan fékk góða dóma í Fréttablaðinu og Fréttatímanum en varla nema rétt þokkalega í Morgunblaðinu. Melchior fylgdi plötunni nokkuð eftir með spilamennsku um sumarið og í framhaldinu næstu tvö árin hélt sveitin tónleika með reglulegu millibili.

Melchior 2009

Á árunum 2015 til 17 fór hins vegar minna fyrir Melchior á tónleikasviðinu þótt sveitin væri nokkuð virk í æfingahúsnæðinu að vinna með nýtt efni. Ný plata var að mestu leyti tekin upp veturinn 2015-16 en þau Melchior liðar nostruðu heilmikið við efnið áður en það leit dagsins ljós vorið 2019 á plötunni Hótel Borg, þar sem þemað var samnefnt hótel í miðborginni. Platan hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu.

Hljómsveitin Melchior er því enn í fullu fjöri og má segja að hún sé mun virkari nú á tuttugustu og fyrstu öldinni en á þeirri síðustu, að minnsta kosti hvað plötuútgáfu varðar.

Efni á plötum