Múspell (1993-)

Múspell 1993

Margt er óljóst varðandi dauðarokkssveitina Múspell, hún birtist fyrst í Músíktilraunum 1993 en hvarf svo af sjónarsviðinu til fjölda ára, var þá að öllum líkindum ekki starfandi en birtist aftur skömmu eftir aldamót og hefur síðan þá komið nokkuð reglulega fram án þess að hægt sé sagt að segja að hún hafi starfað samfleytt til þessa dags. Allar frekari upplýsingar um það má gjarnan senda Glatkistunni.

Ekki liggur fyrir hvenær nákvæmlega Múspell var stofnuð, hún keppti sem fyrr segir í Músíktilraunum 1993 og voru þá meðlimir hennar þeir Sigurgrímur Jónsson söngvari og gítarleikari, Vernharður R. Sigurðsson gítarleikari, Magnús Másson trommuleikari og Finnur Hákonarson bassaleikari. Sveitin sem kom upphaflega frá Selfossi og nágrenni lék létt dauðarokk að sögn Morgunblaðsins en sveitin komst ekki í úrslit keppninnar enda var dauðarokkið á útleið þá eftir nokkur góð ár.

Múspell mun hafa starfað eftir áfram eftir Músíktilraunir og sumarið 1994 urðu þær breytingar í sveitinni að Stefán Ólafsson, Ólafur Á. Másson gítarleikari og Magnús Halldór Pálsson bassaleikari (sem allir komu úr Burp corpse) komu í sveitina, hér er giskað á að Sigurgrímur söngvari hafi við þær breytingar fært sig yfir á trommusettið en þeir Vernharður hafi þá einir verið eftir af upprunalegu útgáfu sveitarinnar. Jóhann Ingvi Magnússon gæti hafa verið einn meðlima Múspells síðar en Glatkistan hefur ekki frekari upplýsingar um meðlimaskipan sveitarinnar.

Múspell virðist hafa legið í dvala í allmörg ár í lok síðustu aldar en birtist af því er virðist aftur vorið 2000 og var nokkuð virk til að byrja með en síðan þá hefur sveitin komið fram endrum og sinnum, og oftast tengt tónlistartengdum hátíðum eins og Andkristnihátíð, Eistnaflugi og þess konar tónlistarhaldi, þá var sveitin meðal þeirra sem hituðu upp fyrir sænsku sveitina Amon Amarth árið 2004.

Fjöldi demo-upptaka liggur eftir sveitina en fæstar þeirra eru opinberar útgáfur, sem fyrr er nefnt má gjarnan senda Glatkistunni frekari upplýsingar um sögu og útgáfusögu Múspells.

Efni á plötum