Burp corpse (1993-94)

Burp corpse

Burp corpse var dauðarokkssveit frá Selfossi sem eins konar forveri Múspells og Ámsvartna.

Sveitin var stofnuð 1993 og voru meðlimir hennar í upphafi Stefán Ólafsson söngvari og Magnús Halldór Pálsson bassaleikari en Atli [?] gítarleikari og Rúnar Már Geirsson trommuleikari bættust fljótlega í hópinn. Einhver tími leið þar til Ólafur Á. Másson gítarleikari kom inn sem viðbót og enn urðu breytingar á skipan sveitarinnar þegar Atli hætti og Óskar Gestsson kom í hans stað.

Þannig var Burp corpse skipuð í Músíktilraunum vorið 1994 þar sem sveitin komst reyndar ekki í úrslit keppninnar en dauðarokkið hafði þá verið á hraðri útleið í henni og þeir félagar voru því hálfgert eyland innan um aðrar léttari sveitir.

Burp corpse starfaði til haustsins 1994 en þá bauðst þeim Magnúsi, Ólafi og Stefáni að ganga til liðs við Múspell, og hljómsveitin Ámsvartnir var einnig stofnuð upp úr sveitinni.