Busabandið [1] (1960-64)

Busabandið

Busabandið, skólahljómsveit Menntaskólans á Akureyri, starfaði í um fjögur ár á fyrri hluta sjöunda áratugs liðinnar aldar, og ól af sér nokkra kunna tónlistarmenn.

Það voru Skagamennirnir Arnmundur Backman saxófón- og harmonikkuleikari og Friðrik Guðni Þórleifsson píanóleikari, þá busar í Menntaskólanum á Akureyri, sem stofnuðu Busabandið haustið 1960 en þeir höfðu fyrr um árið átt þátt í stofnun hljómsveitarinnar Dúmbó heima á Akranesi. Fljótlega bættist Siglfirðingurinn Þorvaldur Halldórsson við en hann lék á gítar og klarinettu auk söngs, næstur kom inn í sveitina Jón G. Kristjánsson gítarleikari og síðastur Halldór Þorsteinsson trommuleikari.

Busabandið lék einkum á skemmtunum innan skólans en eitthvað einnig utan hans og gekk þá undir nafninu BB sextett.

Breytingar urðu á sveitinni um áramótin 1961-62 þegar Þorvaldur hætti í skólanum og um leið í bandinu og tók þá Arnmundur við söngnum um tíma, nýr meðlimur komi í stað Þorvaldar en það var Vilhjálmur Vilhjálmsson sem varð söngvari Busabandsins og bassaleikari einnig.

Haustið 1962 kom nýr gítarleikari til sögunnar að nafni Birgir Karlsson en hann tók við af Jóni. Um það leyti kom annar gítarleikari, Jón Þorsteinsson inn í sveitina en þeir Halldór trommuleikari voru bræður.

Þannig starfaði Busabandið þar til í byrjun árs 1964 að Friðrik Guðni yfirgaf sveitina og tók Egill Eðvarðsson við af honum. Þessi skipan hélst óbreytt til vorsins 1964 þegar sveitin hætti störfum.

Meðlimir sveitarinnar fóru í ýmsar áttir og flestir þeirra urðu kunnir tónlistarmenn. Vilhjálmur og Þorvaldur urðu báðir þjóðþekktir dægurlagasöngvarar, og Friðrik Guðni, Arnmundur, Birgir og Egill áttu einnig eftir að starfa heilmikið að tónlist, mismikið þó.