Við Menntaskólann á Akureyri var lengi hefð fyrir skólahljómsveitum, fyrstu áratugina var um að ræða sérstakar hljómsveitir í nafni skólans en á sjöunda áratugnum voru þær nefndar ýmsum nöfnum þótt þær væru í grunninum skólahljómsveitir. Þessar sveitir léku á dansleikjum og öðrum uppákomum innan veggja menntaskólans en fóru stöku sinnum út fyrir hann til dansleikjahalds.
Svo virðist sem fyrst hafi starfað skólahljómsveit við MA vorið 1939, sú sveit starfaði til 1942 og innihélt þá Guðmund Kr. Jóhannsson, Hörð Jóhannsson og Jóhannes G.V. Þorsteinsson (Jonna í Hamborg) píanóleikara, þessi sveit lék bæði á dansleikjum og í leiksýningum nemenda. Eftir það varð hlé á og næst virðist hafa verið hljómsveit starfandi í skólanum 1944 og 45, sú sveit var sjö manna og var Jón Sigurðsson trompetleikari meðal þeirra en hann sagði síðar í viðtali að sveitin hefði verið stærsta og versta hljómsveit landsins, engar upplýsingar liggja fyrir um aðra meðlimi sveitarinnar. Síðara árið lék Jón með Óskari Osberg saxófónleikara, Geir Sigurðssyni trompetleikara, Jóel Ingimarssyni píanóleikara og Móses Aðalsteinssyni trommuleikara – ekki er þó alveg víst að sú sveit hafi verið skólahljómsveit.
Árið 1946 var enn stofnuð skólahljómsveit og bar sú sveit einnig síðar þekktan tónlistarmann en Magnús Pétursson var píanóleikari sveitarinnar og reyndar einnig trumbuleikari eins og það var kallað en þeir Birgir Jóhannsson skiptu með sér þeim hljóðfærum, aðrir voru Sverrir Jóhannesson klarinettuleikari, Einar Sigurðsson banjóleikari og svo Guðmundur Jónsson sem lék á sög og Sölvi Eysteinsson og Hafsteinn Baldvinsson sem léku á draggargan en harmonikkur gengu gjarnan undir því heiti á þeim tíma. Líklega komu söngvarar stundum fram með sveitinni.
Ekki er að finna neinar heimildir um skólahljómsveitir innan MA næstu árin en árið 1949 var sjálfur Ingimar Eydal píanóleikar í slíkri sveit, upplýsingar vantar um aðra meðlimi þeirrar sveitar. Það sama má segja um skólahljómsveitir sem störfuðu á sjötta áratugnum, þær hafa sjálfsagt verið starfandi en upplýsingar um þær eru mjög takmarkaðar og aðeins liggur fyrir að Jón Aðalsteinsson var harmonikkuleikari í sveit sem starfaði 1952. 1959 var kvintett starfandi við MA en ekkert annað liggur fyrir um hann.
Frá og með 1960 báru skólahljómsveitirnar oftar en ekki nafn og síðasta „Skólahljómsveit Menntaskólans á Akureyri“ var starfandi 1968, engar upplýsingar er að finna um þá sveit. Meðal sveita sem báru nöfn má nefna Busabandið en hún var starfandi 1960-64 – sú sveit varð eftir á töluvert þekkt fyrir að innihalda liðsmenn eins og Vilhjálm Vilhjálmsson, Þorvald Halldórsson og Friðrik Guðna Þórleifsson. Aðrar sveitir eru t.d. Lubbar (1964), Taxmen (1966-68), Combó Kalla skírnis (1973), Hver (1975-78) og þannig mætti áfram telja. tónlistarlífið hefur yfirleitt verið fjölskrúðugt í skólanum og þar hafa t.d. sprottið upp fjölmargar hljómsveitir í tengslum við hljómsveitakeppni MA – Viðarstauk.
Ekki liggur fyrir hvernig skólahljómsveitamálum hefur verið háttað við Menntaskólann á Akureyri hin síðustu ár.