GCD (1991-95)

Bubbi og Rúnar í Kaplakrika

Súpergrúppan GCD var afrakstur Rúnars Júlíussonar og Bubba Morthens sem settu þessa sveit á stofn í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar en hún sendi frá sér þrjár breiðskífur fullar af stórsmellum sem margir eru löngu orðnir klassískir í íslenskri tónlistarsögu.

GCD átti sér nokkra forsögu eða aðdraganda, árið 1990 hafði Bubba Morthens fundist Rúnar Júlíusson gamla rokkgoðið úr Keflavík muna sinn fífil fegurri og ræddi við Óttar Felix Hauksson um hvort ekki væri hægt að fá hann í samstarf með sér. Þegar á reyndi var Rúnar meira en til í það enda mun hann hafa verið einstaklega bóngóður og sagði helst aldrei nei við neinu. Það varð því úr að Rúnar kom fram á Þorláksmessutónleikum Bubba sem gestur og þar sungu þeir m.a. saman lagið Kaupmaðurinn á horninu. Bubbi hafði hugsað þetta samstarf með þeim hætti að Rúnar yrði gestur hans á næstu plötu en hugmyndin þróaðist og var að eins konar dúett þeirra tvegga (eða hljómsveit), og þannig var farið af stað í verkefnið vorið 1991.

Landsmenn fengu forsmekkinn af þessu samstarfsverkefni þegar byrjað var að auglýsa tónleika sem fyrirhugaðir voru í Kaplakrika í Hafnarfirði þann 16. júní um sumarið en þeir voru hluti af Listahátíð í Hafnarfirði og fengu yfirskriftina Risarokk, þessir risatónleikar yrðu stærstu tónleikar sem haldnir hefðu verið hérlendis með nokkrum „þekktum“ erlendum sveitum (Poison, Quireboys, Slaughter, Bullet boys og Artch) auk þessarar nýju súpergrúppu sem þá hafði fengið nafnið GCD en hugmyndin að nafninu ku hafa komið frá Óttari Felix. Um svipað leyti og þetta spurðist út birtust fréttir þess efnis að plata með sveitinni væri væntanleg um sumarið. Auk Bubba sem söng og spilaði á gítar og Rúnars sem einnig söng og lék á bassa voru meðlimir GCD sagðir vera þeir Bergþór Morthens gítarleikari (frændi Bubba og hafði m.a. verið í Egó með honum) og Gunnlaugur Briem trommuleikari (úr hljómsveitum eins og Mezzoforte, Model, Sléttuúlfunum o.m.fl.)

Þeir félagar hófu vinnslu við plötuna í Grjótnámunni í apríl og unnu hratt og örugglega en platan fór í vinnslu í maí, Guðmundur Pétursson gítarleikari, þá tæplega tvítugur að aldri spilaði sem gestur í upptökunum. Um var að ræða sígilt og tímalaust rokk og ról í anda Creedence Clearwater Revival, Rolling Stones o.fl. og því hvergi verið að finna upp hjólið, tónlistin var öll skrifuð á Bubba og Rúnar í sameiningu þótt líklega hafi Bubbi samið megnið af tónlistinni. Platan var gefin út af Steinari Berg og var tileinkuð minningu Rúnars Gunnarssonar (söngvara Dáta, Sextett Ólafs Gauks o.fl.). Eitt aukalag (Bak við farðann) var á geisladiskaútgáfu plötunnar.

GCD

Platan sem bar titilinn GCD leit síðan dagsins ljós á þjóðhátíðardaginn 17. júní, daginn eftir frumsýninguna á stórtónleikunum í Kaplakrika – reyndar hafði sveitin þjófstartað með því að koma óvænt fram tveimur kvöldum fyrr á skemmtistaðnum Lídó svona rétt til að spila sig saman á sviði. Reyndar var alltaf nokkuð á reiki hvort um væri að ræða dúett Bubba og Rúnars eða hljómsveitina GCD, þessi fyrsta plata var gefin út undir nafninu Bubbi + Rúnar en sú næsta undir hljómsveitarnafninu GCD, þriðja platan var aftur undir dúettanafninu Bubbi og Rúnar.

Í kjölfar útgáfu plötunnar var farið af stað með dansleikjaprógramm um sumarið þar sem keyrt var á efni af nýju plötunni í bland við lög frá Utangarðsmönnum og frá ferli Rúnars. GCD lék mjög víða þetta sumar, héldu útgáfutónleika á þaki skemmtistaðarins Berlín við Austurstræti, spiluðu á Þjóðhátíð í Eyjum, á Rykkrokk-tónleikunum, hitaði upp fyrir bandarísku hljómsveitina Skid row og lék í mörgum félagsheimilum víðs vegar um land. Sveitin lék ennfremur á minningartónleikum í Þjóðleikhúsinu um Karl J. Sighvatsson sem látist hafði í bílslysi um vorið, tónleikarnir voru teknir upp og gefnir út og á sveitin tvö lög á þeirri plötu.

En lög GCD voru víða kyrjuð þetta sumar, ruku upp vinsældalista útvarpsstöðvanna og urðu sígild svo til samstundis. Lög eins og Mýrdalssandur, Kaupmaðurinn á horninu (sem sagt er fjalla um Franklín Steiner) og Hamingjan er krítarkort fengu stanslausa spilun en einnig nutu vinsælda lög eins og Rúnar Gunnarsson (In memorium), Þitt síðasta skjól, Korter yfir tólf og Milli svefns og vöku.

Platan (sem kom út á vínyl, kassettu og geisladisk eins og títt var um þetta leyti) seldist vel frá fyrsta degi, hafði selst í um þrjú þúsund eintökum tíu dögum eftir útgáfu og um átta þúsund og fimm hundruð eintökum um haustið og varð þar með næst söluhæsta plata ársins á eftir Sálinni hans Jóns míns, átak sem var í gangi þetta sumar undir yfirskriftinni Íslenskt tónlistarsumar kann að hafa ýtt undir sölu á plötunni en plötusala var almennt góð þetta árið. Þá fékk GCD fremur jákvæðar móttökur poppskríbenta blaða og tímarita – t.a.m. frábæra dóma í Degi, ágæta í Tímanum, Æskunni, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum og þokkalega í DV.

GCD fór mikinn þetta sumar, naut gríðarlegra vinsælda en ekkert var gefið út um framhald sveitarinnar að sumrinu loknu, þeir félagar héldu lokatónleika á Hótel Borg um mánaðamótin október – nóvember sem var útvarpað á Rás 2 og að þeim loknum lagðist sveitin í dvala.

Næsta ár (1992) spurðist út að GCD myndi koma saman aftur á nýjan leik en það var ekki undir neinum lúðrablæstri, sveitin kom fram á útihátíð á Eiðum um verslunarmannahelgina og þar við sat, reyndar sendu þeir félagar frá sér eitt lag í tengslum við þá hátíð – lagið Allir elska að gera það, en það heyrðist einungis í fáeins skipti spilað í útvarpi áður en það var bannað vegna textans en í því kemur textabrotið „en mig langar bara, langar bara, langar bara, bara, bara að ríða“ sem fór fyrir brjóstið á einhverjum hlustendum og því fór sem fór. Lagið hefur aldrei verið gefið út þótt það hefði staðið til enda týndust frumupptökurnar af því, lagið má a.á.m. heyra á Youtube. Meiri athygli vakti ný útgáfa hljómsveitarinnar Skriðjökla á laginu Kaupmaðurinn á horninu en hún vakti nokkrar vinsældir sumarið 1992.

GCD

Bæði Bubbi og Rúnar sendu frá sér plötur árið 1992, Rúnar í félagi við Larry Otis en síðan má segja að sólóferill hans hafi tekið stökkbreytingum frá og með GCD, ári síðar kom út plata sem hann vann með Hemma Gunn en frá árinu 1995 sendi hann árlega frá sér sólóplötur. Ekki þótti eins fréttnæmt að Bubbi gæfi út sólóplötur en þær komu út árlega á þessum árum, jafnvel stundum tvær á ári.

1993 birtist GCD á nýjan leik, Bubbi hafði þá rift samningi sínum við Steina og um leið samningi GCD við útgáfuna sem mun hafa hljóðað upp á þrjár plötur – það eitt segir að þeir félagar Bubbi og Rúnar höfðu ekki ætlað að tjalda til einnar nætur (eins sumars). Sveitin gerði hins vegar nýjan þriggja plötu samning við Skífuna og vinna við plötu hófst fljótlega á nýju ári þegar þeir félagar héldu til Amsterdam þar sem þeir sömdu efni á hana. Eftir Hollands-ferðina bættist eitthvað við af efni og mun það hafa verið um tæplega þrjátíu lög sem þeir höfðu úr að velja en lögin á plötuna urðu tólf talsins. Platan var tekin upp í Sýrlandi í mars á um hundrað og fimmtíu tímum sem þótti ekki mikið og síðan startaði sveitin sumrinu með því að koma fram í sjónvarpsþætti Hemma Gunn, Á tali í aprílmánuði.

Platan hlaut titilinn Svefnvana og mun þar vera vísað til vinnutarnarinnar í hljóðverinu en hún kom út um mánaðamótin maí – júní og í kjölfarið var farið á fulla ferð inn í sumarið líkt og tveim árum fyrr. Svefnvana þótti ekki eins fersk og fyrri platan en nokkur laga hennar urðu þó feikivinsæl, lög eins og Hótel Borg, Sumir fá allt, Nútímamaður og svo stórsmellurinn Sumarið er tíminn voru meðal laga sem nutu hvað mestra vinsælda. Platan seldist þokkalega, í um sjö þúsund eintökum sem var þó ekki nándar nærri eins mikið og fyrsta platan, hún fékk ágæta dóma í Æskunni og Degi og þokkalega í Pressunni, Vikunni og DV.

GCD spilaði víða þetta sumar, fyrir utan dansleiki um land allt lék sveitin um verslunarmannahelgina á Eiðum, á Pepsi rokk stórtónleikum í Kaplakrika og Bílarokk tónleikunum á Lækjartorgi, að þeirri törn lokinni fór sveitin aftur í pásu.

Ekkert spurðist til GCD næsta eina og hálfa árið en í upphafi árs 1995 birtust fréttir þess efnis að sveitin kæmi fram aftur þá um sumarið. Þeir fóstbræður Bubbi og Rúnar ákváðu að hafa sama háttinn á og við plötuna á undan, þeir fóru saman til Amsterdam og sömdu efni. Tónlistin var töluvert frábrugðin fyrri plötunum tveimur, rokkið var fremur á undanhaldi en tónlistin þess í stað poppaðri og á köflum reggískotin. Sömu menn skipuðu sveitina að þessu sinni þótt platan kæmi út undir nafni Bubba og Rúnars, en Þórir Baldursson orgelleikari var þeim innan handar í hljóðverinu (Sýrlandi), og reyndar einnig á nokkrum tónleikum. Platan hafði verið unnin undir vinnutitlinum Á grænni grein en fékk að lokum nafnið Teika og kom út á vegum Skífunnar.

Nokkur laganna náðu vinsældum s.s. Komdu með, Aulaklúbburinn, Ég sé ljósið og Konur og vín, en tvö síðast töldu lögin voru reggískotin. Teika fékk ágæta dóma í DV og þokkalega í Degi og Morgunblaðinu.

Sumarið 1995 var eins og fyrri starfssumur sveitarinnar, keyrt var á sveitaböllin og um verslunarmannahelgina kom sveitin fram á UXA 95, frægri hátíð við Kirkjubæjarklaustur, og á Halló Akureyri fyrir norðan en fljótlega eftir verslunarmannahelgina lagðist sveitin enn í dvala. Um þetta leyti nýtti Margrét Örnólfsdóttir sér Mýrdalssands-lagið af fyrstu plötu GCD í kvikmyndinni Einkalíf í sinni útsetningu.

Miðjuopna úr Æskunni

Þar með má segja að sögu GCD ljúki, sveitin átti eftir að skila af sér einni plötu fyrir Skífuna en gerður hafði verið þriggja platna samningur. Þau ákvæði voru uppfyllt árið 2002 með fimmtán laga safnplötunni Mýrdalssandur með úrvali laga sveitarinnar og einu aukalagi (upptöku frá Hótel Borg, 1991), platan fékk ágæta dóma í Fókusi. Sjálfsagt hefur verið á dagskránni að senda frá sér plötu með nýju efni en af því varð ekki, Rúnar hafði lent í veikindum vegna hjartagalla árið 1996 og þá kom sveitin fram (án hans) á styrktartónleikum fyrir hann. Sveitin kom aftur fram árið 2006 í tilefni af fimmtugs afmælis Bubba Morthens, plata var gefin út í tilefni af þeim tónleikum og átti GCD fjögur lög á þeirri plötu.

Þegar Rúnar Júlíusson lést síðla árs 2008 var GCD endurreist til að leika á minningartónleikum um hann snemma árs 2009, síðar það sama ár kom sveitin aftur saman á Ljósanætur-tónleikum í Keflavík og tók Júlíus sonur Rúnars sæti föður síns, um svipað leyti lék sú útgáfa einnig á tónleikum ásamt hljómsveitinni Egó sem var einnig endurreist.

Það var svo næst árið 2015 að sveitin kom aftur fram á sjónarsviðið með tónleikum í Hörpu en það var í tilefni af því að Rúnar hefði þá orðið sjötugur. Það vakti nokkra athygli og bar nokkurn skugga á viðburðinn að Bubbi var þar einn upprunalegra meðlima sveitarinnar, ósætti um skiptingu tekna var ástæðan en Bubbi vildi sjálfur fá áttatíu prósent á meðan hinir áttu að skipta með sér hinum tuttugu prósentunum enda litu þeir svo á að GCD væri hljómsveit. Það voru því Pálmi Gunnarsson bassaleikari og söngvari sem tók að sér hlutverk Rúnars, Benedikt Brynleifsson trommuleikari, Guðmundur Pétursson gítarleikari, Ingó Geirdal gítarleikari og Þórir Baldursson orgelleikari sem skipuðu GCD auk Bubba á þessu tónleikum. Sveitin hefur því ekki komið fram síðan og mun varla gera það vegna þessa ósættis.

Lög GCD hafa komið út á fjölmörgum safnplötum í gegnum tíðina og óhjákvæmilega eru lögin Mýrdalssandur, Kaupmaðurinn á horninu og Sumarið er tíminn mest áberandi á þeim plötum, Pottþétt-serían, Óskalaga-serían, 100 bestu…-serían, Forskot á sæluna (1991), Stuð, stuð, stuð (2011), Sumarpartí (2005) og Svalasmellir (1995) eru dæmi um slíkar safnplötur.

Efni á plötum