Gísli Jónsson (1871-1938)

Gísli Jónsson

Gísli Jónsson verslunarmaður var ekki tónlistarmaður en hann hafði frumkvæði að því að stofna þrjár lúðrasveitir á landsbyggðinni.

Gísli fæddist í Reykjavík á nýársdag 1871, ekki eru neinar heimildir um að hann hafi numið tónlist en hann var góður söngmaður og finnast heimildir um að hann hafi m.a. sungið dúett við jarðarför. Hann starfaði við verslunarstörf mest alla ævi, við Nathan & Olsen í Reykjavík framan af en flutti rétt fyrir aldamótin 1900 til Eyrarbakka þar sem hann gerðist verslunarmaður. Á Eyrarbakka var hann einnig öflugur í leiklistarlífi bæjarins og stofnaði eða hafði þar frumkvæði að stofnun Lúðrasveitar Eyrarbakka. Ekki liggur fyrir hversu lengi hann starfaði á Eyrarbakka en þaðan fór hann til Víkur í Mýrdal þar sem hann gerðist verslunarstjóri við Brydes verslunina, í Mýrdalnum stofnaði hann einnig lúðrasveit árið 1908 og mun sú sveit hafa starfað allt til ársins 1940, sú sveit var lítil í sniðum eða aðeins fimm manna. Frá Vík í Mýrdal lá leið Gísla til Borgarness þar sem hann stofnaði þriðju lúðrasveitina líklega í kringum 1920 en hann starfaði nokkur ár þar sem verslunarstjóri áður en hann fluttist til Reykjavíkur og stofnaði eigin verslun þar. Lúðrasveitin í Borgarnesi starfaði líklega allt til 1940.

Gísli var lengst af heilsuveill og fljótlega eftir að hann flutti til Reykjavíkur veiktist hann og náði sér aldrei fyllilega, hann lést sumarið 1938 sextíu og sjö ára gamall.