Skárst mun sinni kellu að kúra hjá

Skást mun sinni kellu að kúra hjá
(Lag / texti: erlent lag / Kristján frá Djúpalæk)

Ég man einn góðan granna,
sem var giftur ungri snót,
og honum fannst hún falleg,
þótt flestum þætti hún ljót.
Og ást í húsi hló þar,
og heilög gleði bjó þar.
Já, sannkallað sælu hús það var.

Minn granni virtist glaður
og gekk til starfa hýr.
En enginn veit, hvað undir stakki
eigin vina býr.
Eitt haust, þau ógn og undur,
meðan eiginkonan svaf,
stakk granni minn, hinn glaði maður af.

Já, sem víma öls er ástin,
og af hún rennur skjótt.
Og fegurst fljóð á vori
þér finnst að hausti ljótt.
Síns frelsis naut hann feginn
á för um breiða veginn.

Ó, vei mér, hversu grét ég granna minn.
Það er örðugt ekkju að hugga,
ég ekkert sparað lét.
Margt kvöld hún hné að hjarta mér og grét.
Þetta frétti granninn góði,
og hann gerðist fár um stund.
Hver skilur eigið hjartalag og lund.

Þó menn fagni unnu frelsi
oft það fjötur gerast má.
Og furður gera fjöllin
úr fjarlægð aftur blá.
Og hinn týndi sonur sá
menn sjá oft, ef menn gá.
Að skást mun sinni kellu að kúra hjá.

[m.a. á plötunni Hljómsveit Ingimars Eydal – Hljómsveit Ingimars Eydal, Þorvaldur, Helena og Vilhjálmur]