Draumur fjósamannsins

Draumur fjósamannsins (Það liggur svo makalaust)
(Lag / texti: höfundur ókunnur / Guðlaugur Jónsson)

Ég beislaði hestinn og heimanað reið,
og hleypti nú klárnum á rjúkandi skeið,
því Goðafoss hratt inn á höfnina bar.
Með honum ég ætlaði’ að taka mér far.

Ég ætlaði sem sé að bregða mér brott
frá baslinu heima og vera nú flott,
í spánnýjum fötum og með flibba um háls,
ég fór nú af stað svona glaður og frjáls

Því höfuðstað landsins mig langaði’ að sjá,
með listamenn ótal og skáld ekki fá,
með stjórnarvöld, þingmenn og kaupmannakrans,
með kennara’ og alls konar stórmannafans.

Loks stöðvaði’ ég klárinn og kominn var þá
til kauptúnsins þar sem að Goðafoss lá
á höfninni, ferðbúinn fiska um storð.
Svo flýtti ég mér nú að komast um borð.

Og þá var nú flautað og farið af stað,
og ferðin var yndisleg, víst er um það.
Ég undi þar fallegum frökenum hjá,
uns framundan borgin í dýrð sinni lá.

Er hafnar- að garðinum Goðafoss óð
ég gleymdi mér alveg og höggdofa stóð,
að sjá þetta rafurmagns skínandi skraut,
sem skærustu stjörnur á himinsins braut.

Því borgin var öll sem eitt eldhaf að sjá
aftans í rökkrinu þar sem hún lá.
Ég vaknaði eins og af dáleiðslu dúr
við drunurnar eimpípu skröttunum úr.

Og loks var nú komin sú langþráða stund,
svo léttur í spori og glaður í lund
ég hljóp upp á stræti en hikaði þó,
er hræðileg skepna á móti mér fló.

Þar rétt hjá mér ægileg eldglyrna brann,
svo öskraði dýrið og framhjá mér rann.
Fyrst hélt ég að það væri ferlegur fíll,
en fljótlega skildi að þetta var bíll.

Svo ganga ég lengi um göturnar vann,
því gististað ekki ég neins staðar fann.
Loks sá ég við hús eitt að skráð var á skjöld:
“Skemmtileg mynd er á Bíó í kvöld.”

Mig langaði strax til að líta á það,
um leyfi til inngöngu vörðinn ég bað.
Hann sagði: “Já, veskú, það kostar, minn kær
krónu og fimmtíu eða þá tvær.”

Billegra sætið ég bara svo fékk,
og Bíó- í höllina síðan ég gekk,
og fékk mér þar sæti hjá fallegri mey,
já fríðleika hennar ég gleymi víst ei.

Því skær voru augun sem logandi ljós,
og litfríður vanginn sem fegursta rós,
og hálsinn svo hvítur sem hreinasta mjöll,
og heillandi viðmót og framkoma öll.

Bíóið skjótlega byrjaði þá,
ég bjóst við allt öðru en þarna ég sá,
því það voru kindur, á krafsjörð á beit,
og karlinn þar nálægt sem eftir þeim leit.

Svo breyttist myndin og sá ég þar fjós,
svolítið brann þar á grútarkveik ljós,
beljurnar ánægðar átu sitt hey,
úti í horni sat fjósamannsgrey.

Þetta mér fannst ég ei þurfa að sjá,
af því var ég heima nóg búinn að fá.
Ég vildir hér sjá eitthvað veglegt og flott,
en vonsvikinn hlaut nú að hverfa á brott.

Þá heyri ég hvíslað í eyra mér er:
“Ó, ætlar þú vinur, í burtu frá mér?”
Og höfuð sitt lagði þar öxl mína á
sú indæla meyja er settist ég hjá.

Til unaðarsælu ég undireins fann,
því ástin í hjartanu funaði og brann.
Mér fannst eins og stærsta ég höndlaði hnoss,
er heitan á enni mér rétti’ hún mér koss.

En sorglegar breytingar varð ég þá var,
vonbrigðasársauki hjarta mitt skat,
því fallega meyjan var farin á braut
svo faðmlaga hennar ei lengur ég naut.

Og hugsið þið ykkur hve illa mér brá,
því einn út við fjósbyrslu heima ég lá,
og Skjalda var ennið að sleikja á mér,
allt skrautið var draumur. Já því er nú ver.

[óútgefið]