Gylfi Þ. Gíslason [1] (1917-2004)

Gylfi Þ. Gíslason

Gylfi Þ. Gíslason var margt í senn, doktor í hagfræði, stjórnmálamaður og ráðherra, hugsjónamaður þegar kom að menningu, og tónskáld. Eftir hann liggja um þrír tugir sönglaga útgefin á plötum.

Gylfi Þorsteinsson Gíslason fæddist 1917 í Reykjavík. Hann lauk hagfræðiprófi og síðar doktorsgráðu í þjóðhagfræði og starfaði sem virtur fræðimaður í hinu akademíska samfélagi um árabil sem höfundur fjölda rita og bóka tengt faginu, þótt hann væri klárlega mun þekktari sem stjórnmálamaður og ráðherra fyrir alþýðuflokkinn en hann gegndi embættum ráðaherra iðnaðar-, viðskipta- og menntamála, lengst sem menntamálaráðherra eða í um fimmtán ár. Þar áorkaði hann ýmsu en kunnustu verk hans snúa annars vegar að handritamálinu svokallaða en hann átti stóran þátt í að Íslendingar endurheimtu handrit þau sem Danir höfðu haft undir höndum um árabil, hitt varðaði eflingu tónlistarskóla en Gylfi kom málefnum tónlistarskólanna í þann farveg sem við þekkjum enn í dag. Samhliða störfum sínum sem stjórnmálamaður gegndi hann ýmsum störfum í menningartengdum félagsmálum, hann var t.d. í Þjóðleikhúsráði, stjórn Tjarnarbíós, stjórn Almenna bókafélagsins, formaður Norræna félagsins og þannig mætti áfram telja.

Gylfi var samhliða þessu mikill áhugamaður um hvers kyns menningu og var tónlistin þar fyrirferðamikil að minnsta kosti framan af, hann lék á píanó og samdi sönglög frá unglingsárum og fram á miðjan aldur, alls hafa um þrjátíu lög eftir hann komið út á plötum og nokkur þeirra hafa orðið vel þekkt í flutningi ýmissa listamanna, lög eins og Hanna litla sungið af Leikbræðrum og Ég leitaði blárra blóma flutt af Róberti Arnfinnssyni urðu beinlínis vinsæl en fjöldi annarra söngvara hafa sungið þessi lög.

Gylfi samdi mörg laga sinna við ljóð Tómasar Guðmundssonar og árið 1974 kom út plata þar sem Róbert Arnfinnsson söng níu slík lög, platan bar heitið Við sundin blá: Róbert Arnfinnsson flytur ljóð eftir Tómas Guðmundsson við lög eftir Gylfa Þ. Gíslason, Fálkinn gaf út. Fimm árum síðar (1979) kom út önnur plata á vegum Fálkans sem hafði að geyma samstarf Gylfa og Róberts, sú plata hét Lestin brunar: Róbert Arnfinnsson flytur lög eftir Gylfa Þ. Gíslason, ljóðin komu hins vegar úr ýmsum áttum.

Gylfi Þ. Gíslason, Róbert Arnfinnsson og Jón Þórarinsson

Árið 1981 kom út eins konar safnplata þar sem nokkrir einsöngvarar sungu lög Gylfa við ljóð Tómasar, sú plata bar titilinn Ég leitaði blárra blóma og enn var það Fálkinn sem gaf út, meðal söngvara á þeirri plötu voru Garðar Cortes, Magnús Jónsson, Elísabet Erlingsdóttir, Kristinn Hallsson, Guðmundur Jónsson og Ólöf Kolbrún Harðardóttir en undirleikari var Ólafur Vignir Albertsson. Hann var einnig undirleikari 1988 þegar platan Ljósið loftin fyllir: Gylfi Þ. Gíslason sönglög, kom út hjá Takti (sem runnið var undan rifjum erfingja Fálkans) en þar sungu fjórir einsöngvarar (Garðar Cortes, Sigríður Ella Magnúsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Kristinn Sigmundsson) lög eftir Gylfa. Platan hafði verið hljóðrituð í Hlégarði af Halldóri Víkingssyni en Jón Þórarinsson útsett lögin.

Árið 1985 hafði einmitt komið út hjá Almenna bókafélaginu nótnahefti með tuttugu lögum Gylfa, útsett af Jóni. Aldamótaárið 2000 kom svo út plata sem bar titilinn Ég leitaði blárra blóma: Gylfi Þ. Gíslaon, en útgefandi þeirrar plötu var Fjólan. Þar voru útsetningar Jóns Þórarinssonar einnig hafðar til grundvallar og flest lögin komu reyndar af plötunum Ég leitaði blárra blóma (1981) og Ljósin loftin fyllir (1988) en auk þeirra voru sex lög (sungin af Bergþóri Pálssyni og Hljómeyki) sem hljóðrituð höfðu verið sérstaklega fyrir þessa útgáfu í Víðistaðakirkju.

Gylfi Þ. Gíslason

Lög Gylfa í útsetningum Jóns Þórarinssonar höfðu fyrst verið flutt af Karlakórnum Fóstbræðrum í Austurbæjarbíói 1965 en Jón var þá stjórnandi kórsins. Gylfi var meðlimur Fóstbræðra í nærri hálfa öld og var þar gerður að heiðursfélaga á sínum tíma, og einnig sæmdur Gullhörpunni sem er æðsti heiður sem veittur er af Fóstbræðrum. Árið 2002 kom aftur út nótnahefti með lögum Gylfa, nú var það Háskólafjölritun sem var útgefandinn og lögin útsett af Jóni en bætt hafði verið nokkrum lögum við fyrri útgáfuna frá 1985, sem var þá löngu uppseld.

Fleiri lög Gylfa Þ. Gíslasonar hafa komið út á plötum, þar má nefna plöturnar Hraustir menn með Karlakór Reykjavíkur (eldri félögum) (2011), Songs of Iceland með Jazz ensemble úngút (2013), Karlakórinn Þrestir [ep] (1975), Fagra veröld (1993) sem tileinkuð var Tómasi Guðmundssyni, safnplatan Söngvasjóður (1993) og Jónas Þórir – Sveitin milli sanda (1978). Þess má einnig geta að ræðan sem Gylfi flutti við afhendingu handritanna 1971 má heyra á plötunni Ísland er lýðveldi en hún kom út 1994 í tilefni af hálfrar aldar lýðveldisafmælis Íslands.

Gylfi var ekki einungis tónskáld, hann mun einnig hafa samið og þýtt ljóð en ekki er að finna neinar upplýsingar um að þau hafi komið út á plötum.

Gylfi Þ. Gíslason lést árið 2004, brjóstmynd var síðar gerð af þessum mikla menningarfrömuði (eins og hann var nefndur í minningargrein) til að minnast starfs hans fyrir tónlistarmenntun í landinu, og er hún staðsett í Höfða. Synir hans þrír urðu allir þekktir einstaklingar, Þorsteinn Gylfason heimspekingur, Vilmundur Gylfason stjórnmálamaður og Þorvaldur Gylfason hagfræðingur.

Efni á plötum