Gúndi (1954-)

Gúndi

Guðmundur Heimir Gunnarsson tónlistarmaður birtist undir lok síðustu aldar með sólóplötu undir listamannsnafninu Gúndi, henni var lítið fylgt eftir og hann hefur ekki látið á sér kræla eftir það enda búsettur erlendis.

Litlar upplýsingar er að finna um Gúnda (f. 1954), hann virðist eiga rætur að rekja til Ólafsvíkur en hann hefur búið vestur í Bandaríkjunum í áratugi.

Gúndi kom skyndilega fram á sjónarsviðið haustið 1998 með kántrískotna sólóplötu sem hann hafði unnið í samstarfi við Vilhjálm Guðjónsson sem annaðist upptökustjórn og útsetningar auk þess að fá til liðs við sig nokkra valinkunna tónlistarmenn sér til aðstoðar. Platan bar titilinn Það sem mér er kærast: What I hold dear og innihélt fjórtán frumsamin lög, flestir textarnir voru eftir Gúnda sjálfan en nokkrir þeirra voru eftir föður hans, Gunnar B. Jónsson sem Gúndi tileinkaði plötuna. Platan vakti ekki mikla athygli, hún fékk þokkalega dóma í Degi og Morgunblaðinu.

Gúndi hélt útgáfutónleika í Fjörukránni í Hafnarfirði en hvarf jafnskjótt af sviðinu en hann hafði litla sem enga möguleika á að fylgja útgáfunni eftir þar sem hann var búsettur í Bandaríkjunum.

Efni á plötum