Gylfi Þ. Gíslason [2] (1949-2021)

Gylfi Þór Gíslason

Gylfi Þór Gíslason íþróttakennari og knattspyrnuþjálfari á Selfossi hafði iðkað söng með kórum og víðar til fjölda ára, draumur hans um útgáfu plötu með uppáhalds lögum sínum rættist árið 2006 en hann hafði þá barist við Parkison-sjúkdóminn um nokkurra ára skeið.

Gylfi Þór var fæddur (1949) og uppalinn á Selfossi, hann lék knattspyrnu á yngri árum og varð annar af tveimur fyrstu landsliðsmönnum Selfoss á sínum tíma. Hann lauk námi við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni og stundaði kennslu og knattspyrnuþjálfun þar til að hann þurfti að hætta vegna veikinda sinna. Hann var samhliða störfum sínum virkur í leiklistinni í heimabænum og víðar, og söng þá einnig í kórum – Skagfirsku söngsveitinni, Þjóðleikhúskórnum og Karlakór Selfossi en með síðast talda kórnum söng hann oft einsöng, m.a. tvö lög á plötunni Í ljúfum lækjarhvammi sem kom út 1999. Hann hafði lært söng hjá Sigurveigu Hjaltested og Má Magnússyni. Gylfi Þór tók einnig á sínum tíma þátt í uppfærslum í Þjóðleikhúsinu með Þjóðleikhúskórnum, söng þá í Fiðlaranum á þakinu, My fair lady og óperunni Á valdi örlaganna.

Gylfi hafði sem fyrr segir barist við Parkison-veiki um nokkurra ára skeið þegar fjölskylda hans lét gamlan draum hans um útgáfu plötu með uppáhalds lögunum rætast, þar sem hann söng tíu lög við undirleik hljómsveitarinnar Lótus sem hafði verið starfandi um tveimur áratugum fyrr á Selfossi. Platan hlaut titilinn Með mínu lagi og kom út árið 2006, upplagið seldist upp og þegar útgáfutónleikar voru haldnir á Hótel Selfossi lét hann sig ekki muna um að halda um leið málverkasýningu þrátt fyrir veikindi sín, en hann hafði þá málað í frístundum sínum um margra ára skeið.

Gylfi lést haustið 2021

Efni á plötum