Gyllinæð (1999-2000)

Gyllinæð

Dauðapönksveitin Gyllinæð náði nokkurri athygli í kringum aldamótin en þá nánast eingöngu fyrir annað en tónlistina sem þeir fluttu.

Sveitin var stofnuð vorið 1999 meðal þriggja fjórtán og fimmtán ára vina í Réttarholtsskóla, Daníels Ívars Jenssonar gítarleikara, Ágústs Hróbjarts Rúnarssonar söngvara og Magnúsar Arnar Magnússonar trommuleikara og virðist tilgangurinn upphaflega hafa verið sá að taka þátt í Músíktilraunum, af því varð þó aldrei. Tilurð sveitararinnar mun strax hafa valdið umtali í hverfinu þar sem einhverjir foreldrar höfðu áhyggjur af því að meðlimir hennar væru yfirhöfuð saman þar sem þeir höfðu á sér ekkert sérlega æskilegt orðspor.

Orðsporið var heldur ekki að ástæðulausu, sveitin rataði í nokkur skipti í fjölmiðla og það var þá yfirleitt tengt einhverju öðru en tónlist eða spilamennsku hennar. Reyndar vakti hún fyrst athygli þegar hún spilaði í útvarpsþáttum Tvíhöfða á útvarpsstöðinni X-inu en svo var það stríð við nágranna í æfingahúsnæði sveitarinnar sem hélt nafni hennar á lofti, þar fór fremstur í flokki (af því er fjölmiðlar samtímans segja) háttsettur embættismaður hjá ríkinu sem stöðugt kvartaði undan hávaða, sigaði lögreglunni á sveitina og barði æfingahúsnæðið að utan með látum og hótunum. Þeir Gyllinæðar-félagar svöruðu með því að semja lagið Djöflakallinn með sleggjuna og þegar gerður var sjónvarpsþáttur (Pétur og Páll á Skjá einum) um sveitina var þessu nágranni þar í aðalhlutverki. Þátturinn komst þó ekki strax í loftið þar sem nágranninn hafði komist á snoðir um málið og farið fram á lögbann en þátturinn var þá klipptur og endurunninn og sýndur nokkrum vikum síðar í gjörbreyttri mynd.

Gyllinæð á Grænlandi

Faðir Daníels Ívars, Jens Kr. Guðmundsson hafði tengsl til Grænlands, hafði annast útgáfu safnplötunnar Rock from the cold seas í tengslum við rokkhátíðina Nipia rock festival, sem haldin var í litlum bæ á vesturströnd Grænlands. Þangað var tríóinu boðið síðla sumars 1999 (ásamt Alsælu, sem var eins konar aukasjálfs Jens) en reyndar reyndist ófært frá Kulusuk á austurströnd Grænlands (þar sem þeir lentu) og yfir til Aasiaat á vesturströnd landsins þar sem hátíðin fór fram, þess í stað lék sveitin á tónleikum í nágrenni Kulusuk. Lítið fór fyrir frásögnum af spilamennsku þeirra félaga en þeim meira fyrir fylleríi, slagsmálum og skemmdaverkum á tónleika- og gististöðum sveitarinnar. Þannig má segja að Gyllinæð hafi gert allt vitlaust eins og lesa mátti í frásögnum blaða en ekki í þeim skilningi sem menn ætluðu, nokkur blaðaskrif og umræða urðu í kjölfar sveitarinnar um málið hér heima. Gyllinæð varð með þessu ein fyrsta erlenda rokksveitin sem lék á Grænlandi.

Ári síðar fór sveitin aftur til Grænlands og lék þá á Nipia rock hátíðinni og var eitthvað svipað uppi á teningnum í þeirri ferð og þeirri fyrri. Bjarni „móhíkani“ Þórðarson lék á bassa með sveitinni í það skiptið en annars var sveitin bassaleikaralaus.

Gyllinæð fór aldrei í hljóðver til að taka upp efni en hins vegar voru þrjú lög tekin upp í æfingahúsnæði sveitarinnar og gefin út í tvö hundruð eintökum á split-plötu með Alsælu, sumarið 1999. Þau eintök eru löngu uppseld. Það sama sumar áttu þeir einnig lag á safnplötunni Lagasafnið 7 og líklega sáu þeir um undirspil í lagi Alsælu á sömu plötu. Til stóð að sveitin ætti lag á Rock from the cold seas II en sú plata kom aldrei út, einnig var talað um að þeir fengju pláss á safnplötunni World music from the cold seas en af því varð ekki.

Gyllinæð leystist upp fljótlega eftir síðari heimsóknina til Grænlands (haustið 2000) eftir innbyrðis deilur. Magnús trommari (sem er sonur Magnúsar Eiríkssonar) hefur starfað með nokkrum sveitum s.s. Andlát, Shadow parade, Ylju o.fl. en hinir tveir virðast lítið hafa komið að tónlist síðan.

Efni á plötum