Bjarni Þórðarson (1966-2005)

Bjarni Þórðarson

Bjarni Þórðarson eða Bjarni móhíkani eins og hann var iðulega kallaður er einn af tákngervingum pönktímabilsins hér á landi en ummæli hans um sniff í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík vöktu mikla athygli á sínum tíma.

Bjarni (Þórir) Þórðarson fæddist 1966 og ólst upp á höfuðborgarsvæðinu. Hann varð fljótlega utangarðs, flosnaði upp úr skóla, fór að heiman og varð einn af Hlemmpönkurunum svokölluðu, rótlausum unglingum sem fundu sér sameiginlegan félagsskap og afdrep á Hlemmi. Bjarni skartaði móhíkana kambi og þannig hlaut hann viðurnefnið Bjarni móhíkani.

Bjarni stofnaði ásamt félögum sínum hljómsveitina Sjálfsfróun og sú sveit fékk gott pláss í kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík sem var frumsýnd vorið 1982 en þá var Bjarni á sextánda ári. Auk þess að flytja þrjú lög í myndinni var nokkurra mínútna langt viðtal við Bjarna þar sem hann talaði um sniffið en hann hafði þá sniffað gas og lím um tíma en var reyndar hættur því þegar þarna var komið sögu, og var í raun að vara við slíkri iðju. Ummælin urðu umdeild og hluti viðtalsins var klipptur út úr myndinni og hún svo bönnuð innan tólf ára, sem varð enn til að vekja athygli á henni og Bjarna sem þarna fékk sína fimmtán mínútna frægð í íslensku pönksenunni.

Bjarni í Rokk í Reykjavík

Bjarni varð ekki áberandi eftir sýningu Rokk í Reykjavík en hann starfrækti Sjálfsfróun áfram og hún starfaði reyndar allt til ársins 1991, hann starfaði með fleiri sveitum sem flestar voru í skammlífar og má nefna þar sveitir eins og LSD, Ósóma, Biafra restaurant, Kuml, Trelle raksó, Haug og heilsubrest, Gyllinæð, Vini Saddams, Beatnecks og Alsælu. Bjarni lék ýmist á gítar eða bassa í þessum sveitum. Þá hefur einnig verið nefndur sem hugmyndafræðingur hljómsveitarinnar Reptilicus.

Hann kom einnig stöku sinnum fram sem trúbador en ekki liggur fyrir hvort hann flutti eigið efni þar, hann mun t.d. hafa ort nokkuð af ljóðum og var mjög skapandi listamaður þótt það kunni að koma einhverjum á óvart. Þá mun hann hafa leikið smáhlutverk í nokkrum kvikmyndum.

Bjarni fékkst við ýmislegt á lífsleiðinni, hann vann við ketilhreinsun um það leyti sem Rokk í Reykjavík var sýnd en síðar vann hann í frystihúsum og við sjómennsku víða um land s.s. á Hellissandi og Eyrarbakka. Hann flutti til Danmerkur árið 2001 og hafði búið þar í nokkur ár er hann lést í bílslysi haustið 2005, þá um fertugt.

Bjarni hafði róttækar skoðanir á hlutunum og barðist gegn óréttlæti, var alltaf svolítið utangarðs og á skjön við samfélagið en hefur verið lýst sem góðum dreng með ríka réttlætiskennd.

Þess má að lokum geta að lagið Böring sem pönksveitin Q4U gaf út á sínum tíma fjallar einmitt um Bjarna móhíkana.