Festi [tónlistartengdur staður] (1972-2000)

Auglýsing frá 1972

Félagsheimilið Festi í Grindavík er líklega eitt sögufrægasta samkomuhús Íslandssögunnar en þar voru haldin hundruð ef ekki þúsundir sveitaballa og annarra dansleikja, einkum á áttunda og framan af níunda áratug síðustu aldar.

Hafist var við að byggja húsið sumarið 1968 en þá hafði Kvenfélagshúsið svokallaða (einnig kallað Kvennó) verið aðal samkomuhús Grindvíkinga frá árinu 1930, það hús hýsti um hundrað og fimmtíu manns og hafði verið ágætt til síns brúks framan af en var á sjöunda áratugnum löngu sprungið hvað gestafjölda varðaði.

Stofnað var sameignafélag utan um byggingu hússins og var Ragnar Emilsson arkitekt fenginn til að teikna það, fullbyggð var byggingin um 1700 fermetrar. Aðalsalur hússins tók um 350 manns í sæti en ýmis önnur starfsemi fór fram í húsinu s.s. bókasafn Grindavíkurhrepps auk þess sem skrifstofur hreppsins voru í húsinu um skeið, þá var bíóaðstaða, fundaraðstaða, skrifstofurými o.fl. þar. Húsið hlaut nafn fjalls norðaustan við Grindarvík, Festarfjalls sem í daglegu tali var kallað Festi, festi merkir auk þess hátíð sbr. festival.

Ragnar Kjartansson myndhöggvari gerði listaverk í anddyri hússins

Festi var tekið í notkun á sjómannadaginn 1972 en formlega var það þó ekki opnað fyrr en um haustið, reyndar var það ekki vígt fyrr en nokkru síðar þegar aðrar álmur hússins voru tilbúnar. Strax fyrsta árið varð Festi vinsælt félagsheimili og dansleikir voru haldnir þar mjög oft, algengt var að tvö böll væru haldin í húsinu sömu helgina og jafnvel þrjú í sömu vikunni framan af, þá voru allt að þrjár bíósýningar einnig í húsinu í viku hverri og Festi var á þessu blómaskeiði eitt örfárra félagsheimila landsins sem ekki var rekið með tapi. Þannig gekk það meira og minna fram til 1980 en á níunda áratugnum fækkaði heldur dansleikjahaldi eftir því sem sveitaböllunum fækkaði og samkomuhúsunum fjölgaði að sama skapi og á tíunda áratugnum voru böll haldin í húsinu endrum og eins, þorrablót, kúttmagakvöld, fótboltaböll, sjómannadagsböll og þess konar fastir liðir. Allar vinsælustu sveitaballahljómsveitir hvers tíma léku á fjölmennum dansleikjum í húsinu, s.s. Trúbrot, Haukar, Hljómar, Hljómsveit Ingimars Eydal, SSSól, Sálin hans Jóns míns, Todmobile, Skítamótall, Írafár og síðast en ekki síst Stuðmenn sem léku í fyrsta sinn opinberlega á frægum dansleik í húsinu þegar Sumar á Sýrlandi kom út 1975.

Félagsheimilið Festi Grindavík

Tómas Tómasson (síðar kenndur við Tommahamborgara, Hamborgarbúlluna o.m.fl.) var einn af nokkrum sem gegndu starfi framkvæmdastjóra Festi á blómaskeiði hússins, á þeim tíma gaf hann m.a.s. út litla plötu með hljómsveitinni Pjetri og Úlfunum undir útgáfumerkinu Festi.

Starfsemi í húsinu fór mjög minnkandi á tíunda áratug aldarinnar og segja má að dansleikjahaldi hafi alveg verið hætt þar um aldamótin 2000. Húsið var á þessum tíma í eigu Grindavíkur-bæjar og um miðjan fyrsta áratug nýrrar aldar voru uppi hugmyndir um að breyta húsinu í hótel, ekkert varð hins vegar úr þeim áformum og árið 2011 og 12 var það auglýst til sölu án árangurs. Það var svo ekki fyrr en 2014 að nýir kaupendur breyttu gamla félagsheimilinu í gistihús en það hafði þá staðið ónotað í nokkur ár. Í dag er þar rekið gistihúsið Geo Hotel Grindavík.