Félag alþýðutónskálda [félagsskapur] (1980-83)

Árið 1980 var stofnað innan SATT (Samtaka alþýðutónskálda og tónlistarmanna) höfundarfélag sem ætlað var að vinna fyrir þau tónskáld sem sömdu léttari tónlist (popp, rokk o.s.frv.) og berjast fyrir hærra hlutfalli STEF-gjalda en tónskáld „æðri tónlistar“ eins og það var oft kallað báru þá hlutfallslega miklu meira úr býtum.

Félagið hlaut nafnið Félag alþýðutónskálda (skammstafað FA / F.A.) og var formaður þess Magnús Eiríksson, aðrir í stjórn voru Magnús Þór Sigmundsson varaformaður, Karl J. Sighvatsson ritari, Egill Ólafsson gjaldkeri og Jóhann G. Jóhannsson meðstjórnandi. Varamenn voru Magnús Kjartansson og Sigurður Bjóla.

Viðræður við STEF hófust og vorið 1983 höfðu samningar tekist um jafnan hlut tónskálda hvort sem þeir teldust tilheyra léttari tónlist eða einhverri annarri tónlist, og það sama haust varð Félag alþýðutónskálda að Félagi tónskálda og textahöfunda (FTT), sem enn í dag er hagsmunafélag tónskálda og textahöfunda.