Borgarljós

Borgarljós
(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Sigurður Anton Friðþjófsson)

Er kvöldar að á dimmum steindum strætum,
staðnar líf á mörkum dags og nætur.
Í rökkri tendrast marglit ljós og merla,
mannsins borg.
Mannsins borg.
Mannsins borg.
Og þá er eins og veröldin öll sé vafin
gerviskini frá borgarsólum
og eins og mannsins hugur verði heftur
við hennar torg.
Hennar torg.
Hennar torg.

Og götuljósin geislum sínum varpa
á gler og stál er dauðum augum starir
í nótt sem vefur hlýju mjúku myrkri,
mannsins borg.
En innan veggja stáls og glerja grætur
gleði sem að engum lögum hlítir
og inn í þessa myrku veggi er múruð
mannsins sorg.
Mannsins sorg.
Mannsins sorg.

Í götuljóssins skini mannlíf mótast,
merkt af hópsins þörf og eirðarleysi.
Í leit að frjói lífs í stáli og steypu
um stræti og torg.
Og götuljósin köldum geislum kasta
á kynslóð þá er birtu dagsins þráir
og máske lífið morgunsólin veki
í mannsins borg.
Mannsins borg.
Mannsins borg.

Er kvöldar að á dimmum steindum strætum,
staðnar líf á mörkum dags og nætur.
Í rökkri tendrast marglit ljós og merla,
mannsins borg.
Mannsins borg.
Mannsins borg.

[m.a. á plötunni Bergþóra Árnadóttir – Sýnir: Lög Bergþóru Árnadóttur]