Vítahringur

Vítahringur
(Lag / texti: Halldór Fannar Ellertsson)

Á milli hárra húsa, inni í miðri borg,
byggt var stærðar bákn úr steypu og stáli.
En innan þeirra veggja er múruð mannsins sorg,
hann steiktur er þar yfir hægu báli.

Brotið er hans sjálfstraust, ærulaus og bitur,
glötuð er hans sómatilfinning.
Því eftir á er alltaf gott að vera vitur,
en þú ert kominn inn í vítahring.

Vítahring sem erfitt er að rjúfa hjálparlaust,
vinir allir flúnir eru á brott.
Birtan dvín í sálu þinni, komið er nú haust.
Þú getur ekki brosað – bara glott.

Dregnir fram í dagsljósið þínir verstu gallar,
drepið allt hið góða í sjálfum þér.
Úr öllum áttum öskrað er. Já, samfélagið kallar:
Þetta er það sem glæpamönnum ber.

Þetta er fordæmdur staður og fordæmdir menn,
sem eru sviptir frelsi um mislöng skeið.
Að byrja nýtt líf, allt of fáum tekist hefur enn,
því fangelsi er glæpaskóli um leið.

[af plötunni Fjötrar – Rimlarokk]