Glatkistan hlýtur styrk frá Reykjavíkurborg

Í dag var opinberað hverjir hefðu hlotið styrki menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur fyrir árið 2021 og var Glatkistan meðal þeirra verkefna en vefsíðan hlaut 300.000 króna styrk. Alls voru veittir 94 styrkir fyrir 67 milljónir króna en umsóknir voru alls 201 þar sem sótt var um samtals 295 milljónir.

Það var faghópur skipaður fulltrúum frá Bandalagi íslenskra listamanna og Hönnunarmiðstöð Íslands sem fór yfir styrkumsóknir og lagði til styrki (kr. 44.700.000) en einnig voru gerðir nokkrir tveggja og þriggja ára samstarfssamningar (kr. 22.300.000) við nokkra hópa, m.a. Stórsveit Reykjavíkur, Jazzhátíð Reykjavíkur, Múlann og Kammersveit Reykjavíkur svo nokkur tónlistartengd verkefni séu nefnd – þar af var 2 milljónum ráðstafað til Listhóps Reykjavíkurborgar 2021 en hópur að baki UNGA og EGGS – Alþjóðlegrar sviðlistahátíðar ASSITEJ fyrir unga áhorfendur, hlaut þá útnefningu.

Glatkistan vill við þetta tækifæri þakka menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkurborgar stuðninginn, sem er í senn viðurkenning fyrir þá vinnu sem þegar er að baki og um leið hvatning til frekari verka.

Hér má sjá nánari kynningar á þeim verkefnum sem hlutu styrki menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.