Íslandsklukkur [safnplöturöð] (1994-96)

Rafn Jónsson og Magnús Þór Sigmundsson

Tónlistarmennirnir Magnús Þór Sigmundsson og Rafn Jónsson sendu sumarið 1994 frá sér safnplötu í tilefni hálfrar aldar afmælis lýðveldisins Íslands en platan bar heitið Íslandsklukkur. Á henni var að finna fjölda laga sem Íslendingar hafa tekið ástfóstri við í gegnum tíðina s.s. þjóðlög, rímur og dægurlög allt frá þrettándu öld til nútímans en einnig nýja frumsamda tónlist eftir Magnús Þór. Þeir fengu nokkru þjóðþekkta söngvara til liðs við sig en þar voru á ferð söngvarar eins og Kristjana Stefánsdóttir, Bergþór Pálsson, Sverrir Guðjónsson, Egill Ólafsson og Voces Thules en einnig söng Magnús Þór sjálfur á plötunni. Útgáfufyrirtækið kölluðu þeir félagar MR music.

Platan seldist strax ágætlega og tveimur árum hafði hún náð gullsölu og hefur haldið áfram að seljast síðan þá því útgáfan var ekki síður ætluð erlendum ferðamönnum sem vildi kynna sér íslenska tónlist frá ýmsum tímum, ítarlegur upplýsingabæklingur á nokkrum tungumálum fylgdi plötunni. Hún fékk þokkalega dóma í DV og Eintaki og góða í Degi.

Tveimur árum síðar kom út önnur plata á vegum MR music undir titlinum Icelandic folk music: Instrumental version of Islandsklukkur rhythm of the north, en að mestu leyti var þar um sömu tónlistina að ræða fyrir utan að á nýju útgáfunni voru lögin ósungin, hér var áfram reynt að höfða til ferðamanna og hefur síðari platan selst vel sem hin fyrri. Báðar plöturnar hafa margoft verið endurútgefnar. Árið 2005 kom svo út plata undir sömu merkjum sem bar heitið Íslandsklukkur: Instrumental, en ekki er ljóst hvort um sömu plötu er að ræða og kom út 1996.

Efni á plötum