Íslenskt tónlistarsumar [tónlistarviðburður] (1991-92 / 2009)

Merki átaksins 1991

Árið 1991 var sett á laggirnar tónlistartengt verkefni undir yfirskriftinni Íslenskt tónlistarsumar í því skyni að efla veg íslenskrar tónlistar yfir sumartímann en þá hafði mest öll sala á tónlist til þess tíma mestmegnis farið fram í svokölluðu jólaplötuflóði í desember en lítið á öðrum árstímum.

Átakið hófst formlega á þjóðhátíðardaginn 17. júní 2001 en að því stóðu stórir aðilar á borð við Félag tónskálda og textahöfunda (FTT), Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og Félag hljómplötuframleiðenda, átakið fólst í því að stuðla að meiri útgáfu, umfjöllun fjölmiðla og athygli almennings og stjórnvalda yfir sumartímann.

Herferðin heppnaðist ágætlega og var áberandi um sumarið, sala á íslenskri tónlist tók mikinn kipp og vægi íslenskrar tónlistar á útvarpsstöðvunum jókst töluvert þannig að auðséð var að átakið var að skila sér. Það var því endurtekið sumarið 1992 en hlaut þá af einhverjum ástæðum ekki eins mikla athygli sem varð til þess að það var ekki endurtekið að ári.

Ríflega fimmtán ár liðu og í desember 2006 kom upp sú umræða í fjölmiðlaviðtölum við forsvarsmenn Dags íslenskrar tónlistar, að vekja þyrfti þetta átak til lífsins því vel hefði tekist til á sínum tíma. Enn dróst það en vorið 2009 var Íslensku tónlistarsumri aftur hleypt af stokkunum til að styrkja innviði íslensks tónlistarlífs eftir kreppuveturinn mikla 2008-09, Samtónn stóð fyrir verkefninu að þessu sinni og var í samstarfi við fjölmiðla en einnig mun Reykjavíkur-borg eitthvað hafa komið að verkefninu.

Síðan þá hefur Íslenskt tónlistarsumar ekki verið endurvakið og fátt bendir til að það verði í bráð.