Íslensk tónverkamiðstöð [útgáfufyrirtæki / annað] (1968-)

Merki Íslenskrar tónverkamiðstöðvar

Íslensk tónverkamiðstöð hefur verið starfandi síðan 1968 en hún hefur margvíslegu hlutverki að gegna, hefur m.a. með útgáfustarfsemi að gera, kynningu og markaðssetningu með íslenska tónlist, varðveislu og dreifingu nótna og fleira.

Íslensk tónverkamiðstöð (ÍTM / ITM) var stofnuð snemma árs 1968 að erlendri fyrirmynd en undirbúningur hafði þá staðið yfir um nokkurra ára skeið, segja má að miðstöðin hafi verið eins konar útibú frá Tónskáldafélagi Íslands og hafði einkum það hlutverk í upphafi að ljósrita og dreifa nótum fyrir félagsmenn tónskáldafélagsins og í því skyni hófst skráning og söfnun íslenskra nótna og handrita, þau skipta í dag þúsundum frá á fjórða hundrað tónskálda. Tónverkamiðstöðin hefur einnig haft á sinni könnu upplýsingagjöf um íslensk tónverk, nótur o.fl. og hefur hlotið ríkisstyrki, m.a. tengt verkefninu Gagnagrunnur fyrir íslenska tónlist á 20. öldinni, sem átti að vera aðgengilegur á netinu og á margmiðlunarformi.

Segja má að hlutverk tónverkamiðstöðvarinnar hafi smám saman víkkað, strax árið 1969 stóð hún fyrir útgáfu á plötu sem hafði að geyma Alþingiskantötu Páls Ísólfssonar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, tveggja kóra og einsöngvara og nokkrum árum síðar kom svo út Sögusinfóníua Jóns Leifs. Síðan þá hefur tónverkamiðstöðin gefið út tugi plötutitla með samtímatónlist, yfirleitt mjög vandaðar útgáfur og útgáfuraðir á borð við Portrait-seríuna, og oft í samstarfi við Ríkisútvarpið, Smekkleysu eða aðra aðila, sem sumar hverjar hafa hlotið alþjóðlegar viðurkenningar.

Íslensk tónverkamiðstöð hefur jafnframt haft önnur og margvísleg verkefni á sinni könnu, hún hefur verið kynningaraðili íslenskrar tónlistar (einkum samtímatónlistar) innan lands og utan, og verið í því skyni í samstarfi við erlenda dreifingaraðila og er jafnframt aðili að alþjóðasamstarfi eins og IAMIC (International Association of Music Information Centres), tekið þátt í Midem kaupstefnunni í Frakklandi o.s.frv. Sem dæmi um slíka kynningu má nefna að Íslensk tónverkamiðstöð var ákveðinn frumkvöðull á Íslandi í kynningu á íslenskri tónlist á veraldarvefnum þegar hún í samstarfi við Ríkisútvarpið stóð fyrir uppsetningu á vefsíðu um Jón Leifs árið 1999 en þá var liðin öld frá fæðingu hans, um það leyti stóð miðstöðin jafnframt fyrir sýningu á nótum hans og handritum og stóð fyrir veglegri útgáfu á verkum hans sem m.a. innihéld kvikmyndina um hann (Tár úr steini) á dvd-diski Hér heima stóð tónverkamiðstöðin áður fyrir tónleikahaldi í tengslum við útgáfu platna en hin síðari ár hefur það að mestu lagst af, jafnframt hefur hún staðið fyrir útgáfu á nótnaheftum og kennsluefni, auk annars efnis s.s. íslenskrar tónlistarsögu, New music in Iceland e. Göran Bergendal sem kom út á ensku árið 1991.

Verkefni Íslenskrar tónverkamiðstöðvar hafa mestmegnis snúið að svokallaðri samtíma- eða nútímatónlist en á tíunda áratugnum voru uppi áform um að hefja samstarf við FTT (Félag tónskálda og textahöfunda) um kynningu á poppi, rokki, djass, blús og þess konar tónlist til viðbótar við samtímatónlistina, af því samstarfi virðist ekki hafa orðið en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um það.

Íslensk tónverkamiðstöð lifir ágætu lífi þótt ekki sé hún jafn áberandi og hún var á síðustu öld, þar kemur helst til að útgáfuþátturinn er orðinn mun veigaminni en áður var, eftir bruna sem varð á húsnæði miðstöðvarinnar árið 2009 þótti sýnt að koma þyrfti nótnahandritum og safngögnum hennar í öruggari geymslur og var þeim þá komið fyrir í handritadeild Landsbókasafnsins til varðveislu. Tónverkamiðstöðin gegnir þó enn mikilvægu hlutverki við kynningu á tónlist og meðal nýrri verkefna sem hún kemur að má nefna nýsköpunarverkefnið Yrkju sem gengur út á að tengja yngri tónskáld við hljómsveitir og tónleikatengda viðburði og hátíðir í því skyni að koma þeim á framfæri.