Underground family er eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem Þórhallur Skúlason kom að í lok síðustu aldar en sveitin var hugarfóstur hans þar sem hann hafði sér til aðstoðar nokkra aðra tónlistarmenn.
Underground family lék eins konar danstónlist en sveitin lét fyrst að sér kveða á safnplötunni Egg ´94 sumarið 1994 með tveimur lögum, annars vegar lagið Snow princess þar sem Svala Björgvinsdóttir þá kornung léði Þórhalli rödd sína, hins vegar í laginu Sleeping under a strange sky þar sem Marsibil Magnea Mogensen og O. Pénnant [?] komu við sögu en einnig lék einhver S.J. Björnsson á gítar í báðum lögunum.
Um þetta leyti var Þórhallur að flytjast til Lundúna og ekkert heyrðis til Underground family fyrr en tveimur árum síðar (1996) á safnplötunni Icelandic dance sampler með lagið Family song, þar var sveitin dúett þeirra Þórhalls og Andrew Cowton. Svo virðist sem Underground family nafnið hafi þá í kjölfarið verið lagt niður fyrir lífstíð en 2002 kom sama lag út á safnplötunni 42 more things to do in zero gravity: Part 1. Síðast töldu plöturnar tvær voru hugsaðar til að kynna íslenska danstónlist á erlendum vettvangi.