Tennessee Trans (1994)

Tennessee Trans

Hljómsveitin Tennessee Trans var efnileg sveit og hafði alla burði til að slá í gegn eftir að hafa sent frá sér lag á safnplötu sumarið 1994 sem naut nokkurra vinsælda. Sveitin fylgdi þeirri velgengni hins vegar ekki eftir og gleymdist fljótt í kjölfarið.

Nafn Tennessee Trans kemur fyrst upp í tengslum við Músíktilraunir Tónabæjar snemma vors 1994 en sveitin komst þar í úrslit, meðlimir hennar voru þar Sigurður Jónsson söngvari, Sigtryggur Ari Jóhannsson hljómborðsleikari, Arnar Geir Ómarsson trommuleikari, Einar Tönsberg bassaleikari, Sigurður Örn Jónsson hljómborðsleikari, Haraldur Gunnlaugsson gítarleikari og Jón Fjörnir Thoroddsen söngvari og rappari.

Þessi sjö manna sveit, sem flutti eins konar dansfönk og má án nokkurs vafa telja meðal fyrstu hip hop sveita hérlendis, vakti nokkra athygli í keppninni og sérstaklega fyrir lagið Hipp hopp Halli sem kom út á safnplötunni Trans dans 2 í kjölfarið og naut töluverðra vinsælda, í laginu söng með þeim ung og efnileg söngkona, Svala Björgvinsdóttir.

Sveitin fylgdi Hipp hopp Halla ekki eftir og sveitin mun hafa hætt fljótlega þrátt fyrir að hafa alla burði til að gera góða hluti í kjölfarið. Meðlimir hennar hafa hins vegar poppað upp víða í íslensku tónlistarlífi s.s. í hljómsveitum eins og Eberg, Orgelkvartettinn Apparat, Ham, Cigarette, Brak o.m.fl.