Cigarette (1994-96)

Cigarette

Hljómsveitin Cigarette vakti nokkra athygli fyrir stórsmellinn I don‘t believe you vorið 1995, gaf út plötu í kjölfarið en hætti fljótlega eftir það.

Sveitin var stofnuð síðla árs 1994 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Einar Tönsberg bassaleikari, Haraldur Jóhannesson gítarleikari, Sigtryggur Ari Jóhannsson hljómborðsleikari og Rafn Marteinsson trommuleikari. Sveitin hóf fljótlega að vinna með frumsamið efni en fór ekki að koma fram opinberlega fyrr en snemma um vorið 1995 þegar söngkonan Heiðrún Anna Björnsdóttir hafði gengið til liðs við hana, hún þótti efnileg söng- og leikkona og hafði m.a. vakið athygli í söngleiknum Hárinu.

Um það leyti kom lag Einars, I don‘t believe you út á safnplötunni Heyrðu 7 og það sló rækilega í gegn, og varð til þess að Cigarette spilaði mikið á dansleikjum um sumarið. Sveitin sendi frá sér annað lag, Bleeding like a star (á safnplötunni Pottþétt [1]) sem einnig náði nokkrum vinsældum en síðsumars tók hópurinn sér frí frá spilamennsku, fór í hljóðver og tók upp átta lög til viðbótar.

Afraksturinn kom svo út um haustið á vegum Skífunnar og hlaut titilinn Double talk og var sveitin nokkuð áberandi í spilamennsku í kjölfarið. Breiðskífan hlaut þó fremur neikvæðar viðtökur gagnrýnenda, slaka dóma í DV og Helgarpóstinum og varla nema sæmilega í Morgunblaðinu. Dómur í Stúdentablaðinu var sérstaklega neikvæður og varð reyndar tilefni blaðaskrifa.

Hvort sem það var neikvæð umfjöllun eða eitthvað annað starfaði Cigarette ekki lengi eftir útgáfu plötunnar en hún lagði upp laupana rúmlega ári eftir að hún kom fram á sjónarsviðið.

Efni á plötum