Bubbleflies (1993-95)

Fyrsta útgáfa Bubbleflies

Segja má að hafnfirska hljómsveitin Bubbleflies (Bubble flies) hafi verið eins konar brautryðjandi í íslensku sveimrokki, sveitin skildi eftir sig tvær breiðskífur og nokkur lög á safnplötum.

Upphaf Bubbleflies er rakið til vorsins 1993 þegar þeir Þórhallur Skúlason og Pétur Sæmundsson voru að gera tilraunir með danstónlist og fengu Davíð Magnússon gítarleikara til að spila inn gítarfrasa. Þannig hófst samstarfið og þegar Páll Banine söngvari bættist í hópinn unnu þeir lagið Strawberries ásamt Róberti Bjarnasyni [?] en það kom síðan út á safnplötunni Núll & nix um sumarið. Segja mætti að þeir Þórhallur og Pétur hafi verið fulltrúar danstónlistarinnar í Bubbleflies en Davíð og Páll komu úr rokkinu.

Lagið Strawberries vakti nokkra athygli á Bubbleflies og varð þeim hvatning til að halda áfram samstarfinu. Þeir félagar hófu í framhaldinu samstarf við Kidda í Hljómalind um að gera þriggja eða fjögurra laga plötu sem kæmi út um haustið en sköpunargáfan var slík að þegar upp var staðið höfðu þeir tekið upp og sent frá sér tólf laga plötu með danstónlist. Platan, The world is still alive, var að mestu leyti unnin í tölvum og komu nokkrir gestir við sögu hennar s.s. Magnús Kjartansson faðir Davíðs en einnig má nefna söngkonuna Önnu Mjöll Ólafsdóttur og Ásgeir Óskarsson trommuleikara. Ragnar Óskarsson bassaleikari var einnig meðal gestaspilara en hann gekk í sveitina um það leyti sem platan kom út.

Bubbleflies hélt útgáfutónleika í Valsheimilinu sem voru um leið fyrstu tónleikar sveitarinnar, en þar lék einnig breska sveitin Freaky realistic sem hingað til lands kom í sömu erindagjörðum en nokkur fjöldi breskra blaðamanna fylgdi sveitinni. Reyndar munaði litlu að fresta yrði tónleikunum þar sem Davíð gítarleikari hafði lent í vinnuslysi úti á sjó, var á sjúkrahúsi um tíma og missti annað augað. Á útgáfutónleikunum léku einnig með sveitinni þeir Þórarinn Kristjánsson trommuleikari og Ýmir Einarsson ásláttarleikari auk Ragnars og þannig átti sveitin eftir að vera skipuð um tíma sjö manns.

Bubbleflies

The world is still alive seldist ágætlega eða í um tvö þúsund eintökum sem var nokkuð meira en bjartsýnustu menn þorðu að vona, platan hlaut ennfremur góða dóma í Pressunni og Morgunblaðinu, og þokkalega í DV og Degi.

Bubbleflies fylgdi plötunni eitthvað eftir með spilamennsku en fór að því loknu í nokkurra vikna frí eftir áramótin 1993-94. Þá fengu þeir tilnefningu sem nýliði ársins á Íslensku tónlistarverðlaunum en urðu að lúta í lægra haldi fyrir Orra Harðarsyni.

Þeir Ýmir og Þórhallur hættu fljótlega í sveitinni á nýju ári en Þórhallur fór að einbeita sér að eigin efni og hefur komið víða við í sinni sköpun. Sveitin lék í nokkur skipti á Keflavíkurflugvelli fyrir ameríska hermenn þarna um vorið 1994 fyrir milligöngu Rúnars Júlíussonar og um það leyti bárust fréttir af samstarfi Bubbleflies og dúettsins Bong (Móeiðar Júníusdóttur og Eyþórs Arnalds) en sú sveit var einnig að gera það nokkuð gott í dansgeiranum.

Lag sem Bubbleflies og Bong gáfu út saman bar heitið Loosing your mind og rataði á safnplötuna Reif í staurinn, í kjölfarið fóru sveitirnar tvær saman í tónleikaferð ásamt tveimur plötusnúðum um landið undir nafninu Bob (Bobb) þar sem reynt var að kópera klúbbastemmninguna erlendis. Túrinn gekk vel og nokkuð var sukkað, reyndar komst Bubbleflies í fréttirnar eftir tónleikahald á Akureyri þar sem brotin húsgögn í partíi og nekt í tröppum Akureyrarkirkju komu við sögu.

Sjö manna útgáfa sveitarinnar

Um sumarið 1994 kom einnig út annað lag með Bubbleflies, á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld, en hún var gefin út í tilefni af fimmtíu ára afmæli lýðveldisins Íslands, afurð sveitarinnar var þess vegna íslensk og hét Pjakkur. Samhliða afmæli lýðveldisins lék sveitina á íslenskri listahátíð sem haldin var í London m.a. fyrir tilstilli menningarfulltrúans Jakobs Frímanns Magnússonar, þar lék sveitin um borð í skipi á Thames á, ekki ólíkt því sem Sex pistols höfðu gert nokkrum árum fyrr. Strax eftir Íslendingahátíðina kom sveitin heim og hitaði upp á tónleikum Listahátíðar fyrir Björk og Underworld. Reyndar voru þetta frægir tónleikar því þetta voru fyrstu sólótónleikar Bjarkar á Íslandi.

Bubbleflies var nú orðin töluvert þekkt sveit og lék um verslunarmannahelgina í Húnaveri ásamt mörgum af vinsælustu sveitum landsins, einnig hituðu þeir félagar upp fyrir hljómsveitina Prodigy. Sveitin notaði sumarið ennfremur til að taka upp ellefu laga plötu undir upptökustjórn Daníels Ágústar Haraldssonar en hún kom út í október og bar titilinn Pinocchio.

Tónlistin sveitarinnar hafði nú þróast á þann veg að gítarinn var nú orðinn meira áberandi en áður og því óhætt að skilgreina tónlistina sem sveimrokk. Lagið Bust náði nokkrum vinsældum og það vakti nokkra athygli að sveitin skyldi endurgera gamla Human League slagarann Love action. Platan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu en varla nema sæmilega í Helgarpóstinum og slaka í DV.

Bubbleflies með Svölu Björgvins innanborðs

Bubbleflies var orðin töluvert vinsæl og lék m.a. á dansleik í Njálsbúð á annan í jólum ásamt Pláhnetunni en eftir áramótin 1994-95 fór fremur lítið fyrir sveitinni. Þær fréttir bárust síðan í mars að Páll söngvari hefði verið rekinn úr henni en hann hafði verið gagnrýndur nokkuð í plötudómunum fyrir plötuna. Ung og efnileg söngkona, Svala Björgvinsdóttir sem þá hafði þegar vakið nokkra athygli með hljómsveitinni Scope tók sæti Páls og það fyrsta sem heyrðist frá nýju útgáfu sveitarinnar var framlag hennar í kvikmyndinni Ein stór fjölskylda, sem kom út á plötu með tónlist úr myndinni. Um sumarið kom síðan út lag með sveitinni á safnplötunni Heyrðu 7.

Svala hafði farið á fullt með Bubbleflies um vorið og um sumarið spilaði sveitin á nokkrum sveitaböllum en einnig með bresku sveitinni Drum club sem hingað kom. Davíð gítarleikari var reyndar á fullu einnig þetta sumar með hljómsveitinni SSSól en sveitirnar tvær voru meðal fjölmargra sem komu fram á UXA-hátíðinni við Kirkjubæjarklaustur um verslunarmannahelgina 1995.

Eftir verslunarmannahelgina virðist Bubbleflies hafa farið í pásu en svo bar við að sveitin hvarf þá nokkuð óvænt af sjónarsviðinu og sást reyndar ekkert meir. Engar heimildir er að finna um þetta skyndilega brotthvarf sveitarinnar en meðlimir hennar hafa birst í fjölda hljómsveita síðan, stjarna Svölu Björgvins hefur þó óneitanlega risið hæst.

Lög með sveitinni komu nokkru síðar út á safnplötum Smekkleysu, Alltaf sama svínið (2002) og Lobster or fame (2003).

Efni á plötum