Siggi Ármann (1973-2010)

Siggi Ármann

Tónlistarmaðurinn Siggi Ármann náði aldrei almennum vinsældum með tónlist sinni en hann hlaut hins vegar eins konar költ sess meðal tónlistaráhugafólks fyrir einlæga og angurværa tónlist sína. Hann gaf út þrjár plötur og varð svo frægur að túra með Sigur rós í Ameríkuferð þeirra árið 2002.

Siggi Ármann (Sigurður Ármann Halldórsson (Árnason)) fæddist í Reykjavík 1973 en bjó lengst af ævi sinnar í Kópavogi. Á unglingsaldri hóf hann að spila á gítar og semja tónlist en ekki liggur fyrir hvort hann starfaði með hljómsveitum á þeim árum. Siggi Ármann sem var lærður einkaþjálfari átti við geðræn vandamál að stríða allt frá unglingsaldri en það var ekki fyrr en hann var kominn á þrítugs aldur að hann var greindur með geðhvarfasýki.

Hann var orðinn tuttugu og átta ára gamall þegar hann kom fram á sjónarsviðið sem trúbador sem flutti einlægar lagasmíðar eftir sjálfan sig með engilsaxneskum textum, sem litaðir voru af andlegri líðan hans. Mörgum þótti reyndar kynlegt að sjá Sigga Ármann á sviði, stórgerðan og stæðilegan einkaþjálfara sem flutti tónlist sína á svo angurværan og látlausan hátt.

Um það leyti kom nokkuð óvænt frá honum platan Mindscape, tólf laga plata með minimalískri tónlist þar sem hann naut aðstoðar Jóhanns Jóhannssonar og Sigtryggs Baldurssonar en sá síðarnefndi kom honum í raun á framfæri með því að hjálpa honum um útgáfu á plötunni í gegnum Smekkleysu. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og varla það í tímaritinu Fókusi en margt tónlistaráhugafólk hreifst af tónlistinni og textunum og þannig öðlaðist hún nokkurs konar költ status hjá því.

Jón Þór Birgisson og félagar hans í hljómsveitinni Sigur rós voru meðal þeirra sem hrifust af plötunni, settu sig í samband við Sigga Ármann og buðu honum svo að fara með sveitinni sem upphitunar atriði fyrir tónleikaferðalag um Bandaríkin (alls nítján tónleika) árið 2002. Hann var í fyrstu í vafa hvort hann ætti að þekkjast boðið vegna veikinda sinna en lét svo slag standa og túraði með sveitinni við ágætan orðstír, hann kom svo einnig fram með sveitinni á tónleikum í Háskólabíói um haustið.

Árið 2003 kom Siggi Ármann töluvert fram á tónleikum, bæði einn með gítarinn en einnig ásamt fleiri tónlistarmönnum eins og Curver, Stilluppsteypu og fleirum og það var svo í Listasafni Reykjavíkur í desember að tónleikar með honum voru hljóðritaðir og síðan gefnir út 2004 undir titlinum Siggi Ármann í Listasafni Reykjavíkur. Þar flutti hann nokkur lög af Mindscape en einnig nokkur ný lög sem fyrirhugað var að yrðu á nýrri plötu hans, Music for the addicted, sem von var á fyrr en síðar. Hálfbróðir hans, Örnólfur Kristjánsson sellóleikari var honum til aðstoðar á þeirri tónleikaplötu og þess má geta að Jón Þór í Sigur rós myndskreytti umslag hennar, hún fékk nokkuð góða dóma í Morgunblaðinu.

Sigurður Ármann Halldórsson

Undirbúningur hófst að útgáfu næstu plötu og árið 2004 og 05 kom Siggi Ármann töluvert fram opinberlega til að kynna fyrirhugaða útgáfu, ásamt hljómsveitum eins og Tenderfoot og Indigo en einnig á stærri tónleikum, það ár kom einnig út lag með honum á safnplötunni Smekkleysa: 20th anniversary – New Icelandic music. Platan, Music for the addicted kom svo út haustið 2005 og um svipað leyti kom Siggi Ármann fram á Iceland Airwaves í fyrsta sinn. Skífan var tólf laga og á henni naut hann aðstoðar nokkurra valinkunnra tónlistarmanna, Sigtryggs og Jóhanns eins og á fyrri plötunni, meðlima Sigur rósar og nokkurra annarra. Platan hlaut frábæra dóma í Morgunblaðinu og Blaðinu og mjög góða í Fréttablaðinu.

Siggi Ármann hélt ekki útgáfutónleika fyrr en í febrúar 2006 og síðar sama ár hitaði hann upp fyrir hinn sænska Jose Gonzalez sem hélt hér tónleika, og var jafnframt eitthvað að koma fram á Airwaves og þreifa fyrir sér með útgáfu erlendis. Eitthvað fór reyndar minna fyrir honum í kjölfarið, hugsanlega vegna veikinda hans en árið 2008 kom hann við sögu í heimildamynd eftir Weru Uschakowa um nokkra íslenska trúbadora, sem bar heitið The sound of my life, og fór af því tilefni til Þýskalands og lék á tónleikum í Berlín, þar sem hann kom fram ásamt Frosta Runólfssyni trommuleikara.

Um það leyti var hann að vinna að nýrri plötu ásamt Kjartani Sveinssyni úr Sigur rós, sem fyrirhugað var að kæmi út við fyrsta tækifæri undir titlinum Life is an adventure. Aldrei lauk þeirri vinnu því vorið 2010 bárust þær fréttir að Siggi Ármann væri látinn rétt tæplega þrjátíu og sjö ára gamall. Reyndar var þá gefið út að platan yrði fullkláruð og myndi koma út á einhverjum tímapunkti en því miður hefur það ekki ennþá gerst.

Þess má geta að í minningargrein um Sigga Ármann greindi Ragnar Kjartansson frá því að geðlæknir hefði einhverju sinni komið að máli við Sigga Ármann til að biðja hann afsökunar en læknirinn hafði þá ritað í skýrslu að hann væri haldinn þeim ranghugmyndum að hann væri tónlistarmaður – þetta mun hafa verið eftir að frétt þess efnis birtist að hann hefði verið að túra með Sigur rós um Bandaríkin. Þetta er nokkuð lýsandi fyrir tónlistarferil Sigga Ármanns, að hann var mikils metinn tónlistarmaður á sama tíma og fólk hafði ekki hugmynd um tilurð hans.

Efni á plötum