
Sigurður Helgason
Sigurður Helgason söngfræðingur eins og hann var kallaður, var sannkallaður tónlistarfrömuður innan samfélags Vestur-Íslendinga í kringum aldamótin 1900 en hann stjórnaði fjölda kóra og hljómsveita auk þess að leika á ýmis hljóðfæri og syngja einnig, þá var hann tónskáld og mun þekktasta sönglag hans vera Skín við sólu Skagafjörður sem allmargir kannast við.
Helgi Sigurður Helgason Thingholt var fæddur í Reykjavík 1872 og var kominn af tónelsku fólki enda var faðir hans enginn annar en Helgi Helgason sem þekktur var ásamt Jónasi bróður sínum fyrir að stofna og starfrækja lúðrasveitir fyrstir hérlendis auk þess sem þeir höfðu ýmis konar frumkvæði að söngmenntamálum Íslendinga. Sigurður nam hornablástur hjá föður sínum og söng og orgelleik hjá Jónasi en auk þess söng hjá Steingrími Johnsen og píanóleik hjá Önnu Pétursson. Hann tók því ungur virkan þátt í þeirri tónlistarvakningu sem þá var í gangi og söng t.a.m. með öllum þeir kórum sem starfandi voru í Reykjavík á þeim tíma, t.d. Söngfélaginu Hörpu.
Árið 1890 flutti Sigurður til Vesturheims eins og svo margir aðrir Íslendingar um það leyti til að freista gæfunnar og í leit að betra lífi. Þar var hann í Íslendingabyggðum í Winnipeg til að byrja með, lék þar með hljómsveitum eins og The Icelandic string band og The Icelandic-Swedish sextett sem hvort tveggja voru líklega litlar strengjasveitir en auk þess lék hann með hornleikaraflokki 90. herdeildarinnar og á kornett í íslenskri hljómsveit sem ekki finnast frekari upplýsingar um. Á Winnipeg-árum sínum nam hann einnig söngkennslu, tónsmíðar og tónfræði og var sjálfur farinn að sinna kennslu um það leyti. Þá var hann farinn að semja sönglög sjálfur og mun hans þekktasta lag Skín við sólu Skagafjörður hafa verið samið á þeim árum, fleiri lög má nefna eftir hann s.s. Vormorgunn, Vor, Kveldhugsun, Vestur Íslendingar, Þó þú langförull legðir og fleiri lög við ljóð ýmissa ljóðskálda. Síðar átti hann eftir að semja verk fyrir stærri hljómsveitir. Sjálfur söng hann heilmikið og stundum einsöng á tónleikum, m.a. í Íslensku lúthersku kirkjunni í Winnipeg og var um skeið organisti við kirkjuna, þá mun hann hafa stjórnað karlakór líka í Winnipeg.
Haustið 1894 flutti Sigurður til Milton í Norður Dakóta þar sem hann hélt áfram sínu frumkvöðla- og tónlistarstarfi, þar stofnaði hann söngskóla og kenndi söng en æfði þar líka íslenskan söngflokk, líklega blandaðan kór. Sigurður hélt þó sambandi áfram við Íslendingana í Winnipeg og kom þangað stöku sinnum og hélt þá tónleika.

Sigurður Helgason
Aldamótaárið 1900 flutti Sigurður á Vesturströndina til Seattle og svo Los Angeles og Bellingham (í Washington-fylki) nærri landamærum Kanada þar sem hann átti eftir að búa þar sem eftir var ævi sinnar. Í Seattle stofnaði hann Icelandic Glee Club þar sem einhvers konar söngstarf fór fram en auk þess var hann meðal stofnmeðlima Söngfélagsins Svans og stjórnaði hann þeim kór en hann kom fram opinberlega í nokkur skipti. Sigurður hélt áfram að mennta sig í sönglistinni en starfaði þarna mest orðið með Skandinövum fremur en Íslendingum og hafði m.a. frumkvæði að fyrstu norrænu sönghátíðinni sem haldin var í Seattle, hann hafði þar stjórnaði bæði sænskum og norskum söngfélögum og auk þess dönskum kór (og einnig sænskum) þegar hann bjó í LA.
Þegar hann flutti til Bellingham (1936) starfaði hann áfram aðallega með sænskum kórum og var framarlega í öllu norrænu samstarfi kóra á Vesturströndinni, var t.d. aðal söngstjóri Sambands sænskra söngfélaga á Kyrrahafsströndinni, hann starfrækti einnig söngskóla þar. Hann var eitthvað í samstarfi við Íslendinga á svæðinu (sem voru þó líklega ekki mjög margir) og stofnaði hann íslenskan kór sem hann stjórnaði um tíma og kom fram á Íslendingahátíðum þar vestra undir nafninu Söngfélagið Harpa (eins og samnefnt söngfélag hér á landi nokkrum áratugum fyrr). Þótt ótrúlegt sé hafði Sigurður tónlistina ekki að aðal starfi nema að litlu leyti, hann starfaði lengstum sem málari þannig að tónlistin var yfirleitt aukreitis og áhugamál, það er því með ólíkindum hversu miklu hann afkastaði í tónlistinni. Þá var hann hermaður í kanadíska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni.
Árið 1947 kom Sigurður í nokkurra vikna heimsókn heim til Íslands en hann hafði þá ekki heimsótt föðurland sitt síðan hann yfirgaf það 1890, og verið fjarverandi í 57 ár. Heimsókn hans vakti nokkra athygli og varð til að kynna hann Íslendingum, t.d. voru flutt verk eftir hann í Ríkisútvarpinu. Ári fyrr hafði hann verið heiðraður af íslenskum stjórnvöldum fyrir starf sitt í tónlistargeiranum en víst er að þá var ekki nema lítill hluti Íslendinga sem þekkti nafn hans.
Sigurður Helgason lést haustið 1958, áttatíu og sex ára að aldri.