Helgi Helgason (1848-1922)

Helgi Helgason framámaður í lúðrablæstri

Helgi Helgason

Helgi Helgason, þekkt tónskáld og frumkvöðull í lúðrablæstri og söng á Íslandi, fæddist í Reykjavík 23. janúar 1848. Hann var yngri bróðir Jónasar Helgasonar sem einnig var framarlega í flokki á upphafsárum kórsöngs á Íslandi en þeir bræður fengu snemma áhuga á hvers kyns tónlist.
Helgi smíðaði sitt fyrsta hljóðfæri á fermingaraldri, fiðlu sem hann lék gjarnan á við skemmtanir og ýmis önnur tækifæri.

Hann var sjálfmenntaður fiðluleikari og þótti lunkinn á hljóðfærið, gerði það stundum að leik sínum að spila á böllum með fiðluna fyrir aftan bak. Hann lærði þó eitthvað á fiðlu í fyrri Kaupmannahafnarferð sinni en þangað fór hann 1876 til að nema söng. Hann var þá þegar orðinn fremstur í flokki ásamt Jónasi bróður sínum í söngmennt hér heima en sá síðarnefndi hafði staðið að stofnun Söngfélagsins Hörpu árið 1862 (Helgi var reyndar formaður söngfélagsins um tíma). Kaupmannahafnarferðin var aukinheldur farin í þeim tilgangi að afla sér menntunar á sviði blásturshljóðfæra en hann hafði orðið heillaður af danskri lúðrasveit á vegum konungs sem kom hingað og lék í tilefni þjóðhátíðar 1874.

Helgi nam trompetleik í Kaupmannahöfn og varð fyrstur Íslendinga til að læra á blásturshljóðfæri. Hann hlaut ennfremur styrk til að kaupa slík hljóðfæri fyrir lúðrasveit, sem hann átti þátt í stofnun 1876, og hlaut nafnið Lúðurþeytarafélag Reykjavíkur, það varð fyrsta hljómsveit landsins og undanfari þess sem síðar varð Lúðrasveit Reykjavíkur. Það má því segja að Helgi hafi verið mikill frumkvöðull í almennu tónlistarlífi Íslendinga á 19. öld.

Helgi var einnig tónskáld, samdi sönglög við alls kyns tækifæri og urðu nokkur þeirra landsþekkt. Þau hafa lifað góðu lífi allt til dagsins í dag s.s. Öxar við ána, Nú er glatt í hverjum hól og Vorið góða grænt og hlýtt (sem hann mun hafa samið aðeins fjórtán ára) en alls munu liggja eftir hann um eitt hundrað lög, m.a. var til hans leitað til að semja lög fyrir 100 ára afmæli Reykjavíkurborgar (1876) og opnun Ölfusárbrúar, svo dæmi séu tekin.

Helgi gaf út nokkur sönglagahefti á sínum tíma og var hann fyrstur Íslendinga til að gefa út slík hefti með eigin efni. Hann hafði þá sterku skoðun að semja ætti íslensk lög við íslensk ljóð í stað þess að laga íslensk ljóð að erlendum lögum.

Helgi var trésmiður að mennt og starfaði lengi við þá iðn, hann smíðaði og gerði einnig við harmonium og orgel en það lærði hann sérstaklega í Danmörku, þangað fór hann aftur 1880 og nam tónfræði. Helgi smíðaði einnig og fékkst við þilskipaviðgerðir en sneri sér að verslunarrekstri 1889, sá rekstur gekk ekki sem skyldi og varð hann gjaldþrota um aldamótin 1900. Helgi fluttist í kjölfarið til Ameríku (1902) eins og svo margir á þeim tíma en Helgi Sigurður, sonur hans, bjó þá vestanhafs. Þar bjó Helgi til 1914 er hann kom aftur heim til Íslands, tók þá aftur við lúðrasveitinni, sem þá gekk undir nafninu Lúðraflokkur Reykjavíkur.

Síðar flutti hann til Vestmannaeyja og stofnaði þar einnig lúðrasveit en kom aftur til Reykjavíkur 1921. Þá var hann orðinn veikur og lést hann af þeim veikindum síðla árs 1922, tæplega sjötíu og fimm ára gamall.

Nafn Helga hefur ekki beinlínis verið á lofti hin síðari ár þrátt fyrir frumkvöðlastarf hans en lögin hans lifa og komandi kynslóðir munu án efa syngja Öxar við ána og Vorið góða grænt og hlýtt.