Sjö systur (1968)

Haustið 1966 æfðu sjö reykvískar systur söngatriði fyrir sjötíu ára afmælisveislu föður síns og fengu sér til aðstoðar Jón Sigurðsson (bankamann) til að leika undir söng þeirra. Jóni leist það vel á söng systranna að hann hafði milligöngu um að þær myndu syngja í tónlistarþættí í Ríkissjónvarpinu haustið 1968, sem þá var tiltölulega nýtekið til starfa. Þar voru þær kynntar undir nafninu Sjö systur og sungu við undirleik Jóns og Jóns Páls Bjarnasonar.

Sjö systur voru þær Hjördís, Guðrún, Þórhalla, Sigríður, Kristín, Fjóla og Þórdís Karlsdætur en þær voru þarna á aldrinum 30 til 44 ára gamlar. Þær systur sungu flestar eða allar með kórum en líklega var Fjóla sú eina sem eitthvað söng með hljómsveitum, hún hafði tíu árum fyrr verið meðal fyrstu dægurlagasöngkvenna Íslands.