Skífan [útgáfufyrirtæki] (1978-2004)

Merki Skífunnar í upphafi

Útgáfufyrirtækið Skífan starfaði um ríflega tuttugu og fimm ára skeið en saga fyrirtækisins er í raun mun lengri og flóknari en hér verður fjallað um. Þannig hafði Skífan starfað í þrjú ár sem hljómplötuverslun áður en plötuútgáfan kom til sögunnar og starfaði reyndar á ýmsum öðrum sviðum tónlistar og kvikmynda sem heildsala, smásala, dreifingaraðili, umboðsaðili og útgefandi kvikmynda o.fl. og var um tíma hluti af risastórri fjölmiðlasamsteypu, og er líkast til enn starfandi sem vefverslun með tónlist og fleira. En það er önnur saga.

Jón Ólafsson hafði um árabil starfað við íslenska tónlistarbransann þótt ekki væri hann tónlistarmaður sjálfur, sem umboðsmaður og plötuútgefandi hjá Demant og Júdasi sem síðar varð að Hljómplötuútgáfunni en hann var þá rétt um tvítugt. Árið 1975 festi hann kaup á hljómplötuverslun við Strandgötu í Hafnarfirði sem bar heitið Vindmyllan og ári síðar stofnaði hann aðra slíka verslun við Laugaveg sem hann kallaði Skífuna, í kjölfarið fékk verslunin í Hafnarfirði saman nafn en þá verslun seldi Jón 1981.

Jón varð smám saman umsvifameiri, hann rak áfram Hljómplötuútgáfuna sem gaf út plötur til 1980 en frá 1978 hafði Skífan tekið að sér dreifingu á hljómplötum útgáfunnar og miðast því upphafsár Skífunnar sem útgefandi við árið 1978 og fljótlega eftir það varð fyrirtækið aðili að ÍAH (Félagi hljómplötuútgefenda).

Fyrsta plata Skífunnar – SLP 001

1980 hóf Skífan að dreifa plötum fyrir aðra aðila líka og tveimur árum síðar gaf Jón út erlendar plötur sem pressaðar voru hérlendis s.s. með Abba o.fl. en það var svo árið 1983 sem fyrstu plöturnar komu út í nafni Skífunnar, þ.e. með útgáfunúmeri fyrirtækisins. Það var reyndar plata með hinni þýsku Nicole sem hafði sigrað Eurovision keppnina með lagið Ein biβchen Frieden sem hlaut númerið SLP 001 en í kjölfarið komu út sama ár barnaplatan Pósturinn Páll með Magnúsi Þór Sigmundssyni, Gallabuxur með Guðmundi Rúnari Lúðvíkssyni, plata með Brúðubílnum o.fl.

Framan af var plötuútgáfan ekki mjög mikil enda voru stærri útgefendur á þeim tíma með bestu bitana, s.s. Steinar, SG-hljómplötur (sem reyndar var þá að líða undir lok) og Fálkinn en tímamót urðu hjá Skífunni þegar fyrirtækið gerði samning um útgáfu á myndböndum hérlendis fyrir bandaríska risann Columbia, við þann samning varð fyrirtækið mun umsvifameira og árið 1986 opnaði verslun í nýopnaðri Kringlunni undir Skífu-merkinu, Skífan varð jafnframt framarlega í útgáfu geisladiska þegar þeir komu til sögunnar 1987 en plötur Stuðmanna, Á gæsaveiðum og Strax voru fyrstu plöturnar á því formati.

Plötuútgáfan vatt smám saman upp á sig, SG hljómplötur hættu, Fálkinn hætti að gefa út og Steinar barðist í bökkum, og árið 1993 eignaðist Jón hlut í Steinum sem þá var strangt til tekið gjaldþrota og stofnaði ásamt Steinari Berg eiganda Steina útgáfufyrirtækið Spor sem þeir skiptu með sér helmingshlut í. Fimm árum síðar voru Skífan og Spor sameinuð undir Skífumerkinu sem var þar með orðinn lang stærsti útgefandi tónlistar á Íslandi með milli 70-80% hlutdeild á markaðnum, fyrirtækið átti þá útgáfuréttinn að nánast öllu sem komið hafði út á Íslandi því Steinar hafði á sínum tíma eignast réttinn á því sem Íslenzkir tónar, Fálkinn og SG-hljómplötur höfðu gefið út og samhliða því réðist fyrirtækið í heilmiklar endurútgáfur á gömlu efni undir undirmerkinu Íslenskir tónar en gaf einnig út undir undirmerkjum eins og Dennis records, Pottþétt o.fl. Um það leyti stóð Skífan einnig í að reyna að koma íslensku tónlistarfólki á framfæri á erlendum markaði.

Skífu-logoið sem flestir þekkja

Skífan hafði þá einnig áður eignast hljóðverið Sýrland og Hljóðfærahúsið þannig að umsvif þess voru geysimikil, fyrir utan auðvitað útgáfu á myndbandsefni á VHS og síðar DVD. Skífan varð svo hluti af fjölmiðlasamsteypunni Norðurljósum fyrir aldamótin en Jón hafði eignast meirihluta í því fyrirtæki.

Endalok Skífunnar sem útgáfufyrirtæki urðu árið 2004 er Sverrir Berg Steinarsson og Róbert Melax keyptu Skífu-hlutann og í framhaldinu af því var útgáfufyrirtækið Sena stofnuð 2005 sem varð partur af nýrri samsteypu – Degi group, sem tók við útgáfuhluta Skífunnar. Skífu-verslanirnar voru áfram reknar undir því nafni en síðasta verslun þeirra lokaði árið 2015, þá höfðu aftur orðið eigendaskipti á nafninu. Síðustu plöturnar undir merkjum Skífunnar komu því út fyrir jólin 2004, sú síðasta bar útgáfunúmerið SCD 316 og var jólaplatan Jólaboð með Þremur systrum.