Skítkast (um 1980)

Hljómsveit sem bar nafnið Skítkast og var frá Ísafirði kom að minnsta kosti einu sinni fram á dansleik í Hnífsdal í kringum 1980 en sveitin var eins konar grínatriði meðlima Danshljómsveitar Vestfjarða og Helga Björnssonar, sem síðar varð þekktur sem söngvari.

Grínið gekk út á að koma fram sem pönksveit en meðlimir Danshljómsveitar Vestfjarða skiptu um hljóðfæri í því skyni, Rafn Jónsson kom þar t.d. fram sem saxófónleikari en ekki liggur fyrir á hvað hljóðfæri hinir léku, þeir voru Rúnar Þórisson, Vilberg Viggósson, Örn Jónsson og Hörður Ingólfsson – ekki er heldur ljóst hvort söngkona sveitarinnar Ásdís Guðmundsdóttir tók þátt í gríninu. Söngvari Skítkasts var sem fyrr segir Helgi Björnsson.