Ýr (1973-78)

Ýr3

Ýr

Ísfirska hljómsveitin Ýr varð ein fyrst rokksveita af landsbyggðinni til að gefa út plötu en þekktust er hún líklega fyrir framlag sitt, Kanínuna, sem Sálin hans Jóns míns gerði síðar sígilt.

Ýr var stofnuð á Ísafirði haustið 1973 og voru stofnmeðlimir sveitarinnar Hálfdan Hauksson bassaleikari (B G & Ingibjörg), Guðmundur Þórðarson gítarleikari, Rafn Jónsson (Rabbi) trommuleikari (Grafík, Bítlavinafélagið o.m.fl.) og Reynir Guðmundsson söngvari og gítarleikari (Trap, Saga Class o.fl.). Guðmundur gítarleikari varð fyrstur til að yfirgefa sveitina og í hans stað kom Sigurður Rósi Sigurðsson, það var haustið 1974.

Framan af lék Ýr mest á heimaslóðum en kom þó af og til suður til Reykjavíkur og lék einnig á sveitaböllum víðar um sunnanvert landið.

Sveitin hafði hug á að taka upp plötu og leituðu þeir til Jakobs Frímanns Magnússonar sem um það leyti starfaði í London með ýmsum sveitum, bæði íslenskum og breskum en Stuðmannaplatan Sumar á Sýrlandi hafði einmitt verið þar í vinnslu. Ekki kom þó til að platan yrði tekin í London heldur fór sveitin vestur til New York til þess, Jakob stýrði upptökum, lék á hljómborð á plötunni og var sveitinni mikil stoð og stytta en meðlimir Ýrar höfðu aldrei unnið í hljóðveri áður. Ámundi Ámundason, sem hafði verið í samstarfi við Jakob sá um að koma plötunni út undir merkjum ÁÁ-records.

Platan kom út fyrir jólin 1975 og hlaut titilinn Ýr er skýr / Ýr var það heillin en vinniheiti hennar hafði verið Draumur ungu stúlkunnar. Hún hlaut ekki sérlega jákvæðar móttökur plötugagnrýnenda þótt dómarnir hafi verið tiltölulega góðir í Vísi og þokkalegir í Þjóðviljanum, gagnrýnendur Morgunblaðsins og Dagblaðsins voru öllu neikvæðari í orðum sínum og einkum var vegið að hljómburði plötunnar fremur en gæðum tónlistarinnar.

Lagið Kanínan naut mestra vinsælda á plötunni en það lag gekk í endurnýjun lífdaga 1988 með hljómsveitinni Sálinni hans Jóns míns eins og fyrr segir, og naut mikilla vinsælda, en einnig kom lagið út með hljómsveitinni Flower power 1995, minna fór fyrir þeirri útgáfu. Lagið hefur lengi verið rannsóknarefni og á plötuumslagi er það sagt vera erlent án frekari útskýringa enda vissu þeir Ýr-liðar ekki með hvaða sveit lagið hefði upprunalega verið, þeir hefðu tekið það upp á segulband við léleg skilyrði upp úr Radio Luxemburg og upptakan glatast áður en þeir náðu almennilega að pikka það upp.

Aðspurður sagði Reynir söngvari í samtali við Dr. Gunna löngu síðar (á bloggsíðu þess síðarnefnda 2011) að þeir hefðu haldið lagið vera með Les Humphries Singers, rannsóknir Dr. Gunna bentu þó til að uppruna lagsins mætti rekja til grískrar þjóðlagahefðar. Í íslenskum texta lagsins syngja þeir eina línuna afturábak, líklega til að koma í veg fyrir að það yrði bannað í Ríkisútvarpinu. Sú lína hljómar: Ún liv gé réþ aðír þó ég verði faðir, og hafa margir reynt að skilja hvað sungið er í textanum en hér að framan geta menn séð það í eitt skipti fyrir öll.

Ýr2

Ýr frá Ísafirði

Um það leyti sem platan var að koma út hætti Hálfdan bassaleikari og stöðu hans tók Örn Jónsson. Sveitin fylgdi plötunni eftir með spilamennsku og svo fór að á nokkrum mánuðun seldist tvö þúsund og fimm hundruð eintaka upplagið upp. Einhver orðrómur var og illar öfundartungur um að þeir Ýr-liðar hefðu ekki leikið sjálfir inn á plötuna en slíkt var rekið öfugt ofan í viðkomandi, enda ekkert sem benti til þess. Þær sögusagnir má e.t.v. rekja til þess að Jakob lék á öll hljómborð á plötunni en sveitin hafði ekki á að skipa hljómborðsleikara – fyrr en síðar.

Sumarið 1976 hvarf Rafn trommari úr Ýr en honum bauðst þá staða í Haukum, sem hann auðvitað þáði en sú sveit var ein sú allra vinsælasta á ballmarkaðnum um það leyti. Einnig hætti Sigurður Rósi gítarleikari og í þeirra stað komu trommuleikarinn Hörður Ingólfsson (Berb o.fl.) og gítarleikarinn Kristinn Níelsson (Allsherjarfrík, Mae West o.fl.). Kristinn, sem þarna var bráðungur lék einnig á fiðlu og breyttust áherslurnar nokkuð í kjölfarið, sveitin varð nú kántrískotnari um tíma.

Þegar Rafn hætti í Haukum um áramótin 1976-77 kom hann aftur heim á Ísafjörð og settist á nýjan leik á bak við trommurnar en þá hafði Ýr verið í pásu um nokkurra vikna skeið, með honum í för fylgdi Rúnar Þórisson gítarleikari sem Rabbi hafði kynnst fyrir sunnan og um vorið bættist hljómborðsleikarinn Vilberg Viggósson við en þá fyrst var hljómborðsleikari í sveitinni.

Ýr lék nú nokkuð stopulla en áður, tónlistin þyngdist nokkuð og þegar hluti sveitarinnar stofnaði aðra sveit, Danshljómsveit Vestfjarða (sem lagði áherslu á balltónlist) leið enn lengra á milli þess sem Ýr lék opinberlega. Starfsemi hennar varð slitróttari með hverjum mánuðinum og þegar gefið var út sumarið 1978 að sveitin væri farin í pásu og myndi jafnvel birtast með nýja plötu að henni lokinni var ljóst hvert stefndi, Ýr kom aldrei úr þeirri pásu. Samstarf þeirra félaga átti þó eftir að leiða til nýrrar sveitar sem kom fram á sjónarsviðið nokkrur síðar og bar nafnið Grafík. Þá sveit þekkja flestir.

Lagið Kanínan (oft einnig nefnt Hey kanína) heldur nafni sveitarinnar nokkuð á lofti og hefur það komið út á safnplötunum Með von í hjarta (2001) og Svona var árið 1975 (2008), en einnig gaf útgáfufyrirtæki Rafns Jónsson, R&R músík út plötu Ýrar á geisladisk 1996.

Efni á plötum