Náð (1968-73)

Náð frá Ísafirði

Náð var hljómsveit frá Ísafirði en hún spilaði rokk í þyngri kantinum og var stofnuð 1968.

Meðlimir sveitarinnar voru ungir að árum en þeir voru Rafn Jónsson trommuleikari (Rabbi), Örn Ingólfsson bassaleikari, Reynir Guðmundsson söngvari og Sigurður Rósi Sigurðsson gítarleikari. Svanfríður Arnórsdóttir (önnur heimild segir Ármannsdóttir) söngkona og Ásgeir Ásgeirsson orgelleikari komu síðar inn.

Þegar þeir Reynir, Rafn og Örn yfirgáfu sveitina 1972 komu Hallgrímur Sigurðsson trommuleikari (d. 1977) og Örn Jónsson bassaleikari í stað þeirra.

Sveitin lék á böllum víða um land en þó mest á Ísafirði og nágrenni.

Náð hætti störfum 1973 og var önnur sveit, Ýr stofnuð upp úr henni.