Dánarfregn

Dánarfregn
(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Steinn Steinarr)

Í gærkvöldi andaðist Guðmundur Jónsson,
gamall maður frá Patreksfirði.
Og það kom upp úr dúrnum að eignir hans eru
ekki svo mikils sem fimm aura virði.

Það gerði nú ef til vill ekki svo mikið,
fyrst engum til byrði í lífinu varð hann,
og slíkt mætti jafnvel þeim burtgengna bróður
til betrunar telja – En hver á að jarða‘ann?

Það er sorglegt að heyra þó sérhver maður
fyrir svo og svo miklu kaupi vinni,
að hundruð manna í heiminum deyja
sem hafa ekki neitt fyrir útför sinni.

Já víðsjált er hlutskipti velstæðra manna,
og von er að margur upp hafi flosnað,
þegar ræflarnir lifa og ræflarnir deyja
og ræflarnir jarðast á þeirra kostnað.

[af plötunni Bergþóra Árnadóttir – Eintak]