Raunasaga úr sjávarþorpi

Raunasaga úr sjávarþorpi
(Lag / texti: erlent lag / Sigurður Þórarinsson)

Séleg pía er Sigga Geira
og sexappíl hefur flestum meira,
hlýtt og notalegt hennar ból
hverjum sem býður hún næturskjól.
Það vita Kalli Jóns og Gústi læknisins
og Nonni Sæmundar og Halli rakarans
og Fúsi Sigurleifs og Palli á Goðanum
og Denni í Efstabæ – og einnig ég.

En ekki má yfir miklu hlakka,
í mars þá eignaðist Sigga krakka,
sagt var að prestinum brygði í brún
er barnsföður tilnefna skyldi hún.
Hún nefndi Kalla Jóns og Gústa læknisins
og Nonna Sæmundar og Halla rakarans
og Fúsa Sigurleifs og Palla á Goðanum
og Denna í Efstabæ – og einnig mig.

Nú urðu yfirvöld úr að skera
því ei má fjölgetið barn neitt vera,
slíkt þykir óhæfa hér til lands,
og hópnum stefnt var til sýslumanns.
Þar mættu Kalli Jóns og Gústi læknisins
og Nonni Sæmundar og Halli rakarans
og Fúsi Sigurleifs og Palli á Goðanum
og Denni í Efstabæ – og einnig ég.

Þegar úrskurðinn upp loks kvað hann
allir flýttu sér burtu þaðan,
skálkar sem sluppu með skrekkinn þar,
skunduðu kátir á næsta bar.
Þar hittust Kalli Jóns og Gústi læknisins
og Nonni Sæmundar og Halli rakarans
og Fúsi Sigurleifs og Palli á Goðanum
og Denni í Efstabæ – en ekki ég.

Því þarna urðu mér örlög ráðin,
mér einum var sem sé dæmdur snáðinn,
hvenær sem lít ég það litla skinn
læðist þó efi í huga minn.
Hann líkist Kalla Jóns og Gústa læknisins
og Nonna Sæmundar og Halla rakarans
og Fúsa Sigurleifs og Palla á Goðanum
og Denna í Efstabæ – og ekki mér.

[m.a. á plötunni Hljómsveit Ingimars Eydal – Kvöldið er okkar]