Danslagakeppni SKT [tónlistarviðburður] (1950-61)

Merki SGT og SKT

Líklega hafa fáir tónlistarviðburðir á Íslandi haft jafn mikil og víðtæk áhrif á tónlistarlífið hér og danslagakeppnir þær sem Góðtemplarar (og fleiri í kjölfarið) stóðu fyrr á sjötta áratug síðustu aldar en segja má að með þeim hafi íslenska dægurlagið verið skapað.

Góðtemplarareglan í Reykjavík hafði verið stofnuð undir lok 19. aldarinnar hér á landi og skapað sér ákveðinn sess í bæjarlífinu en markmið hennar var fyrst og fremst að stuðla gegn áfengisdrykkju og halda þ.a.l. dansleiki þar sem fólk skemmti sér án áfengis eða annarra vímugjafa. Templararnir höfðu strax í upphafi starfsemi sinnar byggt félagsheimili eða samkomuhús, Gúttó við Tjörnina eða Góðtemplarahúsið við Tjörnina og þar voru haldnir dansleikir ásamt öðrum tengdum samkomum. Gúttó varð hins vegar með tímanum alltof lítið því dansleikir á vegum templara voru vinsælar samkomur og þá var brugðið á það ráð að leigja hús eins og Listamannaskálann og síðar Röðul og fleiri staði til dansleikjahalds.

Þegar aðsókn á dansleiki tók að dala nokkru eftir seinna stríð voru góð ráð dýr, dansleikirnir höfðu aflað Templurum góðar tekjur enda veitti ekki af því í smíðum var stórt félagsheimili við Eiríksgötu (Templarahöllin sem var vígð 1968) og jafnframt átti ungdómur borgarinnar það á hættu að falla í áfengisgildruna ef hann hefði ekki áfengislausa dansleiki til að sækja. Auk þess höfðu síðan á stríðsárunum erlendir menningarstraumar ráðið hér öllu og fátt orðið um þjóðlega og holla tónlist á borð við rímur, íslensk dægurlög mátti nánast telja á fingrum annarrar handar og var það helst Sigfús Halldórsson sem hélt merki þeirra á lofti. Einhverjum Templaranum datt þá í hug að halda danslagakeppni sem bæði myndi trekkja að gesti á dansleiki reglunnar og um leið skapa íslenska tónlist. Innan góðtemplarareglunnar voru þá tvö félög sem skammstöfuð voru SGT og SKT, líklega var annars vegar um að ræða Skemmtifélag Góðtemplara, hins vegar Sumarklúbb Templara en ekki er alltaf ljóst hvor skammstöfunin stóð fyrir hvað – líklega stóð þó SKT fyrir skemmtifélagið.

Alltént var það skemmtifélag Góðtemplara (stofnað 1926) sem stóð fyrir þessari nýjung sem danslagakeppnin var og haustið 1950 var sú fyrsta haldin en Freymóður Jóhannsson hafði yfir umsjón með henni, aðeins einu sinni hafði þá slík danslagakeppni verið haldin hérlendis – á Hótel Íslandi árið 1939.

Hljómsveit var svo ráðin til að útsetja lögin og leika undir í keppninni, lengst af var það hljómsveit Carls Billich en svo sáu söngvarar af báðum kynjum um að syngja lögin, það voru yfirleitt vinsælustu söngvarar landsins eins og Sigurður Ólafsson, Haukur Morthens, Alfreð Clausen, Svala Nielsen, Elly Vilhjálms o.s.frv. Lögin í efstu sætunum voru svo gefin út á nótum og flest þeirra laga sem unnu til verðlauna voru svo gefin út á plötum við miklar vinsældir.

Sextán lög bárust í þessa fyrstu keppni og var fyrirkomulagið með þeim hætti að tvö undankvöld voru haldin með átta lög hvort kvöld þar sem þrjú komust áfram þannig að sex lög kepptu á úrslitakvöldinu. Smá hnökrar voru á þessari fyrstu keppni, flestir lagahöfundarnir höfðu gert ráð fyrir að lögin ættu að vera ósungin en fyrir úrslitakvöldið var þeim gert kleift að bæta texta við lögin þannig að hægt væri að syngja þau. Þeir sem náðu því (þrátt fyrir skamman fyrirvara) höfðu forskot á hina enda var það svo að sungnu lögin röðuðu sér í efstu sætin. Það var Valdimar Auðunsson sem sigraði þessa fyrstu danslagakeppni SKT með lagið Ástartöfrar, Helgi G. Ingimundarson varð í öðru sæti og Jan Morávek í því þriðja. Þessi fyrsta keppni var haldin í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina og vakti hún mikla athygli enda var útvarpað frá úrslitakvöldinu. Áhorfendur kusu um hvaða lög komust í úrslitin en ekki liggur fyrir hvert fyrirkomulagið var í úrslitunum.

Atkvæðaseðill Danslagakeppni SKT

Þessi fyrsta danslagakeppni þótti heppnast með miklum ágætum enda var góð aðsókn á hana, og menn voru því staðráðnir í því að halda hana aftur að ári og breyttu fyrirkomulagi hennar lítillega, þannig innihélt keppnin framvegis tvo flokka laga, annars vegar gömlu dansana og hins vegar þá nýju – það fyrirkomulag var eftirleiðis á henni. Til að halda gæðum textanna góðum sá Ríkisútvarpið um að halda eins konar dægurlagatextakeppni og gafst lagahöfundum þá færi á að semja lög sín við textana, þeir máttu auðvitað einnig láta einhverja aðra sjá um textagerðina en ekki var mælt með að lagahöfundarnir gerðu textana sjálfur nema þeir væru þeim mun hagmæltari, jafnframt þurftu höfundarnir að senda lögin til þátttöku raddsett á nótum, þau máttu ekki hafa verið flutt áður opinberlega eða komið út á plötum þannig að segja má að þarna hafi línurnar fyrir síðari lagakeppnir eins og Eurovision, Landslagið o.fl. að nokkru leyti verið lagðar.

Strax var ljóst eftir fyrstu keppnina að Gúttó við Tjörnina var alltof lítill staður og eftirleiðis var keppnin haldin einnig á Röðli, Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og víðar en hún var jafnan haldin á sínum hvornum staðnum eftir því hvor flokkur keppninnar átti í hlut.

Næsta danslagakeppni SKT var haldin vorið 1951 og eins og vænta mátti var mikil þátttaka í keppninni og fullt hús út úr dyrum öll kvöld hennar, SKT hélt um það leyti upp á 25 ára afmæli sitt en á þeim tíma reiknaðist þeim til að hafa haldið um 1100 áfengislausar skemmtanir. Valdimar Auðunsson gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina í annað sinn með lag sitt Stjarna lífs míns í flokku nýju dansanna en í gömlu dönsunum var það Jóhannes Jóhannesson sem sigraði með lagið Valsinn. Og keppnin naut áfram mikilla vinsælda næstu árin, árið 1952 var það Eyþór Stefánsson sem sigraði flokk gömlu dansanna með lagið Vornótt og áðurnefndur Jóhannes vann með lagið Það var um nótt í nýju dansa flokknum. Keppninni var útvarpað sem áður en nú kusu um 450 manns í atkvæðagreiðslu en hlustendur við viðtækin gátu kosið með atkvæðaseðli sem fylgdu dagblöðunum. Til marks um vinsældir keppninnar má nefna að 62 lög bárust í hana og 28 þeirra komust í keppnina sjálfa (sextán lög í nýju dansana og tólf í gömlu dansana), samhliða því þurfti auðvitað að fjölga undankvöldunum.

Vorið 1953 bárust 105 lög í keppnina og þá urðu þau merku tímamót í keppninni og reyndar íslenskri tónlistarsögu allri að í flokki gömlu dansanna sigraði lag sem bar titilinn Sjómannavalsinn og var eftir Svavar Benediktsson við texta Kristjáns frá Djúpalæk, en það var fyrsta svokallaða sjómannalagið eins og þau hafa iðulega verið kölluð. Fram að því höfðu nokkur kóralög eins og Íslands hrafnistumenn haft eitthvað með sjómenn og þeirra starf að gera en með Sjómannavalsinum var hrundið af stað eins konar sér íslenskri tískubylgu sjómannalaga sem stóð næstu áratugina og gat af sér fjölda sígilda slíkra smella. Svo þakklátir voru sjómenn fyrir lagið að Svavar fékk þakkarskeyti frá áhöfunum tuttugu togara eftir sigurinn. Í flokki nýju dansanna sigraði lag Árna Ísleifs við texta Jóns Sigurðssonar, Nótt.

Enn fjölgaði lögunum í keppninni árið 1954 en þá bárust 132 lög í hana, valsarnir voru þar mest áberandi en 58 laganna voru valsar, 34 lög komust inn í keppnina og í flokki gömlu dansa sigraði Svavar Benediktsson annað árið í röð – með lagið Fossarnir við texta Kristjáns frá Djúpalæk en í flokku nýju dansanna sigraði lag Jenna Jóns, Brúnaljósin brúnu en hann samdi einnig textann. Úrslitin voru þá haldin í Austurbæjarbíói en um 2200 manns kusu um sigurlögin. Lögunum sem báru sigur úr býtum var þarna orðið iðulega fylgt eftir með plötuútgáfu og jafnframt voru þau flutt á öðrum skemmtunum SKT og SGT vikurnar á eftir.

Nokkrir af aðstandendum keppninnar 1961, söngvararnir Sigríður Guðmundsdóttir, Sigurður Ólafsson og Svala Nielsen ásamt Árna Norðfjörð og Freymóði Jóhannssyni

1955 dró nokkuð úr vinsældum keppninnar en „aðeins“ 900 atkvæði bárust í keppnina þar sem 36 lög kepptu. Sigurvegarar það árið voru Þórunn Franz með lagið Bergmál við texta Jenna Jóns í flokki gömlu dansanna en hún var fyrst kvenna til að sigra í henni, í nýju dönsunum var það hins vegar Heillandi vor efti Óðin G. Þórarinsson við texta Þorsteins Sveinssonar sem sigraði.

Þarna var orðið ljóst að keppnin hafði komið af stað skriðu nýrra dægurlaga og fjölmargir dægurlagahöfundur höfðu sprottið fram á sjónarsviðið, þetta varð m.a. til þess að Félag íslenzkra dægurlagahöfunda (FÍD) var stofnað  en það starfaði í áratugi á eftir. Verðlaunalög keppninnar komu langflest út á plötum enda var mikill markaður fyrir þau, svo mikill að það varð til þess að hin svokallaða rokktónlist sem barst hingað til lands og víðar frá Bandaríkjunum um miðjan sjötta áratuginn varð undir hvað plötuútgáfu varðar, að mati Svavars Gests löngu síðar. Auðvitað barst rokkið til Íslands bæði í formi tónlistar og bíómynda, fatatísku og alls þess sem fylgdi en íslensk plötuútgáfa hafði hreinlega ekki pláss fyrir íslenskt rokk að neinu marki því Tage Ammendrup hjá Íslenzkum tónum hafði ekki pláss fyrir það í sinni útgáfu fyrir nýjum íslenskum dægurlögum úr SKT keppninni.

Árið 1956 urðu nokkur skil í keppninni en þá bárust aðeins 28 lög í hana, skýringuna á því má að nokkru leyti rekja til þess að höfundar (innan hins nýstofnaða FÍD) voru ekki alls kostar sáttir við fyrirkomulag keppninnar, einhver misbrestur hafði orðið á því að farið var nákvæmlega eftir reglunum og svo hafði Freymóður Jóhannsson, sem hélt utan um keppnina unnið sjálfur til verðlauna í henni en hann hafði sent lög í keppnina þegar honum fannst vanta lög í hana. Einhver blaðaskrif og deilur urðu um málið en þátttakan í kosningunni varð fyrir vikið mikil og um 8000 atkvæði bárust – þess má geta að íbúar landsins voru um 160.000 talsins um það leyti. Sonarkveðja eftir Guðjón Matthíasson við texta Guðjóns H. Alexanderssonar vann í flokki gömlu dansanna og Við gluggann eftir Theódór Einarsson við texta Hólmfríðar Jónsdóttur sigraði flokk hinna nýju dansa.

Fyrrnefndar deilur urðu líklega til þess að ekki var haldin keppni á vegum SKT árið 1957 en hins vegar hélt Félag íslenzkra dægurlagahöfunda slíka danslagakeppni í staðinn og svo aftur 1958 þannig að ekki fækkaði íslenskum dægurlögum við það. SKT birtist reyndar aftur með sína keppni árið 1958 og að þessu sinni hafði Baldur Hólmgeirsson nú tekið við af Freymóði sem sjálfur tók nú þátt í henni af fullum krafti, og nú réði atkvæðagreiðslan einvörðungu úrslitum en áður hafði dómnefnd einnig verið starfandi. Freymóður reyndist sigursæll í þessari keppni, átti þrjú lög í verðlaunasæti en lög hans, Halló sigraði flokk gömlu dansanna og Landhelgispolkinn lenti í öðru sæti. Í landhelginni (12 mílur) eftir Jónatan Ólafsson sigraði flokk nýju dansanna og af titlum þessara laga má sjá að landhelgismálið var nú ofarlega í hugum Íslendinga og því vænlegt að tengja það dægurmenningunni.

Fyrsta sjómannalagið – Sjómannavals e. Svavar Benediktsson

Engin keppni var haldin á vegum SKT næstu tvö árin, 1959 og 1960, af einhverjum ástæðum en árið 1961 var hún haldin aftur og þá í síðasta sinn. Árni Norðfjörð hélt utan um keppnina, 74 lög bárust í hana og 32 þeirra komust í keppnina sjálfa eða sextán í hvorn flokk. Svo virðist sem undanúrslitakvöld keppninnar hafi annars vegar verið haldin í Gúttó (gömlu dansarnir) þar sem Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar lék undir söng keppenda og hins vegar í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (nýju dansarnir) þar sem Svavar Gests og hljómsveit hans lék, en úrslitakvöldið fór svo fram í Austurbæjarbíói, það vakti nokkra athygli og óánægju að Útvarpið skyldi ekki útvarpa frá keppninni. Lyktir urðu þær að lagið Hjónaball eftir Steingrím Sigfússon (sem einnig samdi textann) sigraði flokk gömlu dansanna en Laus og liðugur eftir Jónatan Ólafsson við texta Núma Þorbergs sigraði í nýju dönsunum. Þrátt fyrir að keppnin hefði þarna að nokkru leyti náð fyrri vinsældum var hún ekki haldin aftur af SKT. Ríkisútvarpið endurvakti hins vegar keppni að slíku tali nokkrum árum síðar (1966) undir nafninu Danslagakeppni Útvarpsins.

Á þeim rúmlega áratug sem skeið danslagakeppnanna stóð yfir hélt SKT níu slíkar keppnir og óhætt er að fullyrða að það hafi verið mikið blómaskeið íslenskrar dægurtónlistar en mörg hundruð lög komu fram á sjónarsviðið á þeim tíma, fjölmargir dægurlagahöfundar eins og Svavar Benediktsson, Jónatan Ólafsson, Freymóður Jóhannsson, Ágúst Pétursson, Þórunn Franz, Óðinn G. Valdimarsson og fjölmörg önnur þekkt nöfn komu fram á sjónarsviðið þótt þau væru ekki endilega meðal þátttakenda í keppninni. Samhliða því birtust æ fleiri boðlegir textahöfundar og keppnin varð því jafnframt fólki hvati til að semja lög og texta. Þá má ekki gleyma að fjölmörg þátttökulaganna urðu þekktir smellir þótt þau ynnu ekki til verðlauna í keppninni, hér má nefna lög eins og Selja litla, Í faðmi dalsins, Litla stúlkan, Heimþrá, Stína, ó Stína, Blikandi haf, Nú ertu þriggja ára, Síðasti dansinn, Stjörnunótt, Syngjum dátt og dönsum, Í Egilsstaðaskógi, Nú liggur vel á mér og þannig mætti lengi telja.